Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:49:11 (4492)

2004-02-23 15:49:11# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samskipti ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins eru í fullkomlega eðlilegum farvegi. Sem betur fer hafa ekki borist nema jákvæðar fréttir af gangi samninganna og eftir því sem ég best veit eru þessir samningar í ágætum farvegi. Það er hins vegar ekki tímabært að greina frá því eða ákveða með hvaða hætti ríkisstjórnin kemur endanlega inn í þessa samningsgerð. Línur þurfa að skýrast betur áður en kemur að því.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði réttilega að þetta snerist um traust. Ég minni á að á undanförnum árum, ef við miðum t.d. við árið 1995, hefur kaupmáttur í landinu aukist meira en nokkru sinni fyrr. Lægstu laun hafa hækkað meira en nokkru sinni fyrr, meiri hækkanir á örorkulífeyri og tekjutryggingu hafa verið og meiri stöðugleiki og framfarir í þjóðfélaginu en nokkru sinni fyrr.

Það er þessi þróun sem þarf að halda áfram, og það liggur nokkuð skýrt fyrir hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir í skattamálum. Aðilar vinnumarkaðarins geta að sjálfsögðu tekið mið af því, og hafa tekið mið af því.

Málið er allt í eðlilegum farvegi og það byggir á fullu trausti milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Markmiðið er skýrt, að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið lögð á undanförnum árum með mikilli aukningu kaupmáttar og mikilli hækkun bæði lægstu launa og lægstu bóta.