Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:01:00 (4496)

2004-02-23 16:01:00# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi dagsektirnar er um almennt ákvæði að ræða. Í skýringum kemur fram að ákvæðin þarfnist ekki skýringar þannig að hér er um almenn sektarákvæði að ræða sem venjan er að hafa í lögum af þessu tagi. Ef grípa þarf til þeirra er sem sagt heimild til þess.

Varðandi bráðabirgðaákvæðið er rétt að það er svokallað sólarlagsákvæði. Það er almennt þannig að menn telja eðlilegt að bráðabirgðaákvæði séu ekki varanleg, heldur hafi einhvers konar sólarlag innifalið, þ.e. þau renni út eftir ákveðið árabil. Hvort 10 ár séu rétti tíminn eða ekki geta menn deilt um en ég tel eðlilegt að umhvn. skoði í vinnslu þessa máls hvort eðlilegra sé að hafa eitthvert annað árabil. Hugmyndin var að opna á þann möguleika að umhverfismat gæti farið fram á svona framkvæmd þannig að menn gætu skoðað í hefðbundnu umhverfismati kosti og galla við ýmsar útfærslur af hugsanlegri framkvæmd. Ef aðilar máls, allir saman í einu, verða sammála um að ásættanlegt sé að fara í einhvers konar aðgerðir vegna reksturs þessarar virkjunar yrðu lögin ekki útilokandi eins og þau eru í dag. Þessir þrír aðilar eru sveitarfélagið, landeigendafélagið og Umhverfisstofnun. Það er ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir þarna nema allir þessir þrír aðilar verði sammála um það á sama tíma.