Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:58:24 (4506)

2004-02-23 16:58:24# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur stenst ekki því að það sem er algerlega fortakslaust bannað í lögunum í dag er flutt yfir í að vísu stöðvunarvald meiri hluta Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Það er algerlega fráleitt að halda því fram það sé verið að styrkja stöðu þeirra vegna þess að vatnsborðshækkun af þessu tagi er fortakslaust bönnuð að gildandi lögum. Það er opnuð leið fyrir hækkun, fyrir framkvæmd fram hjá fortakslausu bannákvæði laganna í dag og reyndar fram hjá 2. málslið 1. mgr. 3. gr., eins og hann á að standa í frv., en það er búin til leið fram hjá því með þessu ákv. til brb. II. Það er því hreinn útúrsnúningur að halda því fram að staðan sé með þessu móti á einhvern hátt styrkt.

Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra getur ekki annað en viðurkennt vald Landeigendafélags Laxár og Mývatns er sú að það er í samningnum algerlega fortakslaust að þar liggur valdið. Hæstv. ráðherra og hv. þm. Halldór Blöndal hafa hvorugur haft kjark í sér til að ræða það: Hvað með samninginn frá 16. og 19. maí 1973? (HBl: Hver vill brjóta samning?) Hvað með samninginn --- já, hvers vegna er þá verið að þessu, hv. þm.? (HBl: Það vill enginn brjóta samning ...)

Að ég sé að æsa hér upp menn sem eru alveg sallarólegir yfir þessu, þess þarf ekki til. Landeigendafélagið er búið að álykta um þetta og hæstv. ráðherra virðist ekki vita af því. Öll helstu náttúruverndarsamtök, bæði á svæðinu og í landinu, hafa ályktað gegn þessu: Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglaverndarfélagið, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Landeigendafélagið. Allir þessir aðilar hafa þegar hafnað þeirri leið sem hæstv. ráðherra, að því er virðist með stuðningi hv. þm. Halldórs Blöndals, er að reyna að troða inn á Alþingi.