Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 17:00:31 (4507)

2004-02-23 17:00:31# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hálfgert hneyksli að hlusta á málflutning þar sem manni er brigslað um að brjóta sáttargjörðina. Það er alls ekki svo. Bráðabirgðaákvæði III tekur einmitt mið af sáttargjörðinni. Sagt er að það megi ekki fara í framkvæmd nema að landeigendafélagið samþykki það. En lögin í dag eru þrengri en sáttargjörðin segir til um. Það má ekki breyta rennsli árinnar nema til verndunar og ræktunar. Það ákvæði er þrengra en sáttargjörðin segir til um.

Það er alls ekki hægt að halda því fram, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert, af nokkrum ofstopa að mér finnst, að verið sé að brjóta sáttargjörðina. Það er alrangt. Því er einmitt haldið til haga að ekki sé hægt að fara í framkvæmdina nema landeigendafélagið fallist á hana í því formi sem hún kemur fram. Það á eftir að ræða það.

Hér er hv. þm. að tala um 18 m og 20 m. Þetta er hræðsluáróður. Hv. þm. veit að það er ekki nokkurs staðar verið að tala um þetta. (Gripið fram í.) Hv. þm. sagði 15--20 m hér áðan. Þannig er ekki hægt að halda því fram að verið sé að brjóta nokkra sáttargjörð.

Stjórn landeigendafélagsins ályktaði eftir að ég átti fund með henni fyrir stuttu. En landeigendafélagið hefur ekki komið saman í nokkurn tíma og stjórn landeigendafélagsins lagði áherslu á það við mig að skoða t.d. Kráká og fleiri möguleika. Ég held að málið sé alls ekki þannig vaxið í dag að menn geti sagt að landeigendafélagið sé algerlega á móti. Ég held að málið hafi alls ekki verið skoðað nóg til að hv. þm. geti fullyrt það hér. Alls ekki.