Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:06:28 (4511)

2004-02-23 18:06:28# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Það eru einkum þrjú svæði á landinu sem náttúrufræðingar geta sameinast um að séu merkilegri en önnur út frá sérstæðri náttúru. Það eru Þjórsárver, Surtsey og Mývatn. Ég hefði talið eðlilegt fyrir ábyrgan umhvrh. að einblína á að vernda þessi svæði umfram önnur og að lögin endurspegluðu að einhverju leyti mikilvægi staðanna út frá náttúrufræðilegu gildi þeirra, þ.e. það væri erfiðara að raska stöðum sem flestir náttúrufræðingar landsins geta sameinast um að séu mikilvægir en þeim sem eru síður mikilvægir. Ég hefði talið það vera forgangsverkefni fyrir hæstv. umhvrh.

Er raunin sú? Nei, ég get alls ekki séð það. Hæstv. umhvrh. forgangsraðar ekki. Í stað þess að tryggja verndun svæðanna hefur verið lögð fram þáltill. um að fjölga friðlýstum svæðum um 14, en það er með öllu óljóst hvað sú friðlýsing hefur í för með sér.

Frú forseti. Ef marka má þýðingu þessara fyrirhuguðu friðlýsinga út frá því hvernig vernd þeirra svæða sem náttúrufræðingar landsins telja að séu mikilvægari en önnur svæði, Mývatn, Þjórsárver og Surtsey, eins og áður segir, er ekki að búast við miklu. Af fyrri verkum hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur má helst ráða að svokölluð friðun verði orðin tóm. Allir ættu að muna eftir því þegar núverandi umhvrh. lýsti sig vanhæfa til að úrskurða um Norðlingaölduvirkjun og hæstv. heilbr.- og trmrh. var fenginn til að úrskurða um hæðina á lóninu. Nú deila menn um hvað hæstv. ráðherra meinti í úrskurðinum, þ.e. hvort úrskurðurinn heimilaði lónshæð í 566 metrum eða 568 metrum. Ég hefði talið miklu nær fyrir hæstv. ráðherra að reyna að greiða úr þeim deilumálum sem fyrir eru, áður en þau fara að efna til fleiri deilna á sviði umhverfismála.

Mér er óskiljanlegt af hverju hæstv. umhvrh. er að leggja í enn eina deiluna einmitt á einu þeirra svæða sem náttúrufræðingar landsins telja einna mikilvægast að varðveita. Mývatn er eins og áður segir einstætt vegna sérstæðrar náttúru. Það á í raun ekki að vera einkamál okkar Íslendinga og hvað þá landeigendafélags fyrir norðan hvernig við ætlum að varðveita sérstæða náttúru, heldur hefur svæðið gildi á alþjóðavísu. Ísland hefur reyndar skráð Mývatnssvæðið á grundvelli Ramsar-sáttmálans yfir mikilvægt votlendissvæði.

Ég tel að ábyrgur umhvrh. ætti að íhuga sérstaklega málið áður en hann fer að efna til deilna um verndun svæða sem eru ekki eingöngu merkileg á mælikvarða okkar, heldur á alþjóðavísu.

Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er einkum tvennt sem mun leiða til deilna:

Í fyrsta lagi er verið að minnka það svæði sem nýtur verndar.

Í öðru lagi er verið að opna á að heimila gerð stíflu og að gert verði uppistöðulón.

Ég get ekki séð annað en að í frv. sé verið að minnka landsvæði á Mývatnssvæðinu sem nýtur sérstakrar náttúruverndar. Ég vil því spyrja hæstv. umhvrh. hvort það sé ekki verið að undanskilja Dimmuborgir frá sérstakri lagalegri náttúruvernd með samþykkt frv. Munu Dimmuborgir ekki falla utan þess svæðis sem nýtur verndar samkvæmt frv.? Ég get ekki betur séð en svo sé. Mér finnst það merkilegt sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að taka 14 svæði á landinu í þáltill. og merkja þau sérstaklega, en Dimmuborgir undanskildar. Er ekki sömuleiðis verið að undanskilja Hverfjall og Leirhnjúk, að þau svæði njóti sérstakrar verndar?

Mér finnst að hæstv. umhvrh. ætti að koma þessu álitamáli á hreint og greina okkur frá því hvort verið sé að undanskilja Dimmuborgir, Hverfjall og Leirhnjúk og hvers vegna svo sé. Ég get því miður ekki séð neitt samræmi í störfum hæstv. umhvrh.

Í öðru lagi er verið að opna á að gert verði uppistöðulón á náttúruverndarsvæði sem óumdeilanlega hefur alþjóðlegt verndargildi. Með þessu er hæstv. umhvrh. að ýfa upp 30 ára gamlar deilur. Ég skil í raun ekki hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra.

Í framhaldinu tel ég rétt að spyrja hæstv. umhvrh.: Hvað er það sem kallar á breytta stefnu, þ.e. að opna á gerð uppistöðulónsins? Ég átta mig ekki á því. Er það eitthvað í orkubúskapnum norðan heiða sem kallar á breytta stefnu? Er eitthvað verra að ráða við sandburð úr ánni núna en fyrir 10 árum eða 20 árum? Mér finnst að þessum spurningum verði að svara.

Þess ber þó að geta að það er slegið á varnagla í frv. sem heimilar að ef það á að búa til uppistöðulón á svæðinu, sem Umhverfisstofnun getur heimilað, verði framkvæmdin að fara í umhverfismat. En ef lögin um umhverfismat eða mat á umhverfisáhrifum eru skoðuð á svona framkvæmd að fara í mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tölul. 10. d í viðauka II á að tilkynna þessa framkvæmd og að öllum líkindum mun hún fara í umhverfismat. Ég átta mig í rauninni ekki á því hvers vegna er verið að taka þetta fram í lögunum þegar það er í raun engin þörf á því.

Ég spurði ráðherrann fyrr í umræðunni hvers vegna væri verið að því og fékk fremur óskýr svör. Mig grunar að verið sé að búa þessa stíflugerð í einhvern grænan búning og tala um umhverfismat í leiðinni. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að skýra frá því hvers vegna verið er að tala um þetta umhverfismat í sömu andrá og stíflugerð þegar það liggur ljóst fyrir að í gildandi lögum þarf slík framkvæmd að fara í umhverfismat.

Hver er reynslan af umhverfismati? Er líklegt að umhverfismat stöðvi stíflugerð hæstv. umhvrh.? Til að svara þeirri spurningu er rétt að skoða hve margar fyrirhugaðar framkvæmdir hafa verið stöðvaðar á grundvelli umhverfismatsins. Í gær mátti lesa í Morgunblaðinu mjög góða grein eftir Halldór Valdimarsson. Þar tók hann saman að af 160 framkvæmdum sem höfðu farið í umhverfismat voru tvær sem fengu rautt ljós frá Skipulagsstofnun. Hvað gerðist í framhaldinu? Hæstv. umhvrh. gaf sömu framkvæmdum grænt ljós nánast samstundis, Kárahnjúkavirkjun og borun í Grændal í Ölfusi. Reynslan er því sú að matið á umhverfisáhrifum mun ekki stöðva umrædda stíflugerð. Frv. heitir frumvarp um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Í raun ætti það að heita Stíflugerð við Mývatn.