Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:15:36 (4512)

2004-02-23 18:15:36# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var í raun og veru aðeins eitt sem maður græddi á því að hlusta á það sem síðasti ræðumaður sagði, hv. 10. þm. Norðvest., Sigurjón Þórðarson, og það er að í sjálfu sér er óþarfi að hlusta á hvað þingmenn Frjálsl. hafa að segja ef þingmenn Vinstri grænna hafa tekið til máls áður. Í grófum dráttum er það tekið upp sem þar hefur áður komið fram.

Það mál sem við erum hér að fjalla um er auðvitað mjög sérstakt mál og viðkvæmt heima í héraði, og alls ekki einfalt eins og ýmsir vilja halda fram, þar á meðal hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J.Sigfússon, sem talar í þeim dúr að hann einn kunni stóra sannleika í málinu, hann einn þekki til tilfinninga manna heima í héraði og hvernig rétt sé að líta á þetta mál.

Hv. þm. eyddi löngum tíma ræðu sinnar til að rifja upp Laxárdeiluna gömlu og skal ég ekki fara inn í einstök atriði í þeirri þrætu allri. Hann að vísu minntist ekki á þann mann sem fyrstur steig fram og reyndi að ná sáttum milli Laxárvirkjunar og landeigendafélagsins, Jóhann Hafstein, sem ég efast ekki um að hefði náð fram sáttum þar á milli ef deilan hefði ekki komið upp í aðdraganda kosninga. En í því andrúmslofti sem þar þá var, og eins og látið var, stóðu engar vonir til þess að hægt yrði að leysa málið fyrir vorkosningarnar 1971 og svo rækilega var búið að koma þessum málum í hnút að þeir sem hnýttu hann þurftu mörg missiri til áður en að lokum náðist það samkomulag sem síðan hefur verið byggt á. Ég held að engum manni á þeim tíma sem var sanngjarn og kunnugur málum hafi blandast hugur um góðan vilja Jóhanns Hafsteins til að leysa málið enda rann honum blóðið til skyldunnar. Þó svo að hann hafi ekki verið landeigandi í Þingeyjarsýslu var hann alinn upp á bökkum Laxár.

Nú vitum við auðvitað hvernig á því stendur að þetta mál er tekið hér til umræðu og ég sé ástæðu, vegna þess sem hér var áður sagt, til að rifja það upp sem stendur í greinargerð með frv. um ákvæði til bráðabirgða III, með leyfi hæstv. forseta:

,,Mikill sandburður í Laxá hefur valdið erfiðleikum í rekstri virkjunarinnar og valdið miklu sliti á vatnsvélum. Einnig hafa ís- og krapastíflur við inntak virkjunarinnar truflað rekstur hennar. Þá hafa heimamenn haft áhuga á því að draga úr sandburði í Laxá. Vegna þessa hefur Landsvirkjun, sem nú er eigandi Laxárvirkjana, gert áætlun um að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri. Með því myndast lítið inntakslón ofan stíflunnar og sandur og grjót sem Laxá ber með sér fellur til botns í lóninu. Jafnframt mundi það leysa ís- og krapavandamál þar sem vatnið yrði tekið af botni lónsins en ekki af yfirborði eins og nú er gert. Hugsanlegt er talið að minni sandburður í Laxá neðan virkjunar hefði jákvæð áhrif á lífríki árinnar.``

Svo mörg voru þau orð. Einhver var það sem spurði hvernig á því stæði að þetta frv. er flutt nú. Ástæðan er sú að rekstur Laxárvirkjunar stendur ekki lengur undir sér, ef rétt er reiknað, ef tekið er tillit til afskrifta og tekið er inn í dæmið sá mikli kostnaður sem því fylgir að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og viðhald á virkjuninni. Hv. þm. vita það eins og ég að á síðustu árum hafa menn haldið að sér höndum vegna þess að framtíð virkjunarinnar hefur verið óljós ef ekki yrði hægt að ná samkomulagi um lagfæringar á stíflunni. Þannig stendur þetta mál. Menn geta gert lítið úr því eftir atvikum hvort þeir telji gott eða vont að þessi virkjun, Laxárvirkjun, sé rekin áfram en þá skulum við rifja upp að þetta er byggðamál, fyrst og fremst byggðamál, og þeir sem kunnugir eru nyrðra vita að það er mikill kvíði í mörgum mönnum þar, ekki öllum, vegna þess að þetta er átakamál heima í héraði og ástæðulaust að draga úr því.

Það er mikill kvíði í mörgum heima í héraði hvað um þá verður sem þar vinna og hafa tekjur af virkjuninni. Umsvif hennar margvísleg hafa miklu meiri þýðingu en beinlínis er hægt að draga líkur af ef maður lítur einungis á fjölda þeirra starfsmanna sem þar eru fastráðnir. Slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt. Heimamenn hafa bent á að Laxárvirkjun veiti þeim líka ákveðið öryggi. Þeir rifja gjarnan upp að það eru ekki mörg ár síðan raflínan til Akureyrar slitnaði og menn hafa leitt líkum að því að ef Laxárvirkjun hefði við það tækifæri ekki verið fyrir hendi hefði það þýtt skort á rafmagni í Þingeyjarsýslu í viku. Í sumra augum kann þetta að skipta litlu máli en það skiptir svo miklu máli fyrir heimamenn að þeir líkja því saman að Laxárvirkjun verði lögð niður og að kísilgúrverksmiðjan verði lögð niður í Mývatnssveit og ekkert komi í staðinn. Svo alvarlegum augum lítur heimafólk á málið.

Stundum er vitnað hér til sveitarstjórnarmanna. Menn geta velt fyrir sér hvað hreppsnefnd t.d. Aðaldælahrepps segði ef Laxárvirkjun yrði lokað einn góðan veðurdag og ekki neitt kæmi í staðinn. Þetta er ekki eitthvert mál sem hægt er að tala um bara í einum tóni eða frá einu sjónarhorni. Raunar er mjög vont þegar mál af þessu tagi eru tekin upp í þeim anda hér á hinu háa Alþingi.

Auðvitað geta ýmsir haldið ýmsu fram. Eins og hv. 5. þm. Norðaust. sagði hér áðan dytti í dag engum í hug að virkja Laxá í Þingeyjarsýslu. Ég get bætt við að í dag mundi engum detta í hug að virkja Efra-Sog. Við getum haldið áfram með þeim hætti og m.a.s. rifjað upp að í Þistilfirði voru átök um það hvort rétt væri að virkja fyrst Hafralónsá eða Sandá. (Gripið fram í: Læra ...?) Niðurstaðan af því varð svo að hvorugt var leyft. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (SigurjÞ: Virkja bara meira ...?) Ja, við erum nú að reyna að virkja til þess að komast betur af, hv. þingmaður. Maður lifir ekki bara á ásatrúnni.

Það hefur komið fram hér í umræðunum að Landsvirkjun hefur hreyft því máli að áður en afstaða verður tekin til þess hvernig brugðist verður við þeim erfiðleikum sem nú blasa við í rekstri Laxárvirkjunar óskar Landsvirkjun eftir því að fá lagaheimild til að hún geti rætt við heimamenn um það hvort skynsamlegt kunni að vera að hækka stífluna nokkuð til þess að reyna að leysa þau tæknilegu vandamál sem þar eru á ferðinni og helst slá fleiri flugur í einu höggi.

Það er af þeim sökum sem bráðabirgðaákvæði III er í frv., sem mjög hefur verið spurt um, en það er svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.``

Þessi setning hér vísar til 1. gr. þeirrar sáttargjörðar en þar segir í fyrri mgr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Laxárvirkjun lýsir yfir að hún muni ekki stofna til frekari virkjana í Laxá umfram þá 6,5 megavatta virkjun sem nú er unnið að og sem ekki hefur vatnsborðshækkun í för með sér nema til komi samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.``

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 5. þm. Norðaust., er að reyna að leggja mjög einhliða skilning í þessi orð. Hann stenst ekki. Samkvæmt þeirri heimild sem er í bráðabirgðaákvæði III er alveg ljóst að ef hækkun á stíflunni stenst ekki mat á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og ef slík hækkun er ekki samþykkt í Landeigendafélagi Laxár og Mývatns verður stíflan ekki hækkuð. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Mér finnst satt að segja undarlegt ef alþingismenn ætla að verða fremstir í flokki þeirra sem vilja halda því fram að vilji alþingismanna annarra, félaga þeirra hér á þinginu, standi til þess að við þau lög sem við sjálf setjum verði ekki staðið, að við hér í þessum þingsölum séum að leggja til lagabreytingar með því hugarfari að menn vilji ekki standa við lagabókstafinn. Það er ekki svo, og brigsl um það ná ekki nokkurri átt. Það er alveg ljóst að ef ekki næst samkomulag við Landeigendafélag Laxár og Mývatns verður ekkert úr hækkun þessarar stíflu. Þetta skulu menn hafa í huga og menn skulu tala út frá þeim forsendum til þess að mál þeirra skiljist.

Landsvirkjun hefur ekki gengið í þetta mál með neinu offorsi. Landsvirkjun segir ekki: Við viljum byrja á morgun, við viljum byrja hinn daginn. Það er ekki þannig. Landsvirkjun vill vinna vel að undirbúningi slíks máls, líka vegna þess að það hefur ekki reynst vel og vekur tortryggni ef Landsvirkjun lætur reikna út ýmsa hluti í sambandi við breytingar á vatnsyfirborði eða öðru án þess að jarðeigendum sé um það kunnugt eða án þess að umhverfismat sé gert í samræmi við lög og með þeim hætti að það falli undir lög um umhverfismat. Mun ég koma að því síðar.

Í samræmi við þetta liggur líka fyrir að það er ekki áríðandi á næsta ári eða kannski á næstu tveim árum að ráðast í miklar endurbætur á virkjuninni, heldur verður þess beðið að niðurstaða liggi fyrir í málinu eða a.m.k. geti legið fyrir í grófum dráttum hver vilji heimamanna sé og hvernig þeir hugsi sér að standa að málinu.

Erfiðleikum veldur líka í þessu sambandi að Landsvirkjun hefur ekki farið norður og hefur ekki enn átt fund með landeigendum. Landsvirkjun hefur ekki gert það sem veldur því að málið er að vissu leyti óskýrt.

Nú segir hv. 5. þm. Norðaust. Steingrímur J. Sigfússon að þetta sé öfug leið ef tilgangurinn sé að ná sáttum, það sé öfug leið að byrja á því að afla sér lagaheimildar til þess að mega fara í virkjunina, að byrja á því að kynna málið rækilega fyrir landeigendum, að byrja á því að gera sér nákvæma grein fyrir því hvaða leiðir hægt sé að fara til að ná þeim markmiðum sem skýrlega eru sett fram. Um þetta get ég að sjálfsögðu ekki verið sammála hv. þingmanni. Ég tel að Landsvirkjun hafi staðið mjög vel að þessu máli og sömuleiðis hæstv. umhvrh. Stóryrði eins og að það eigi að raska jafnvægi með lögum, það séu svik við gamla samkomulagið og þar fram eftir götunum eru auðvitað algjörlega ósanngjörn. Það er ekki verið að tala um það hér að rjúfa sáttargjörðina, heldur er verið að tala um að standa við hana.

[18:30]

Við skulum ekki gleyma því að margt í virkjuninni er komið á síðasta snúning og við skulum ekki gleyma því að ef svo fer að ekki náist samkomulag um úrbætur er við því að búast að Þingeyingar standi frammi fyrir því að virkjunin verði lögð niður. Ég er ekki að segja að hún verði lögð niður á næsta ári heldur mun hún svona smá daprast og smá deyja út. En Þingeyingar munu verða varir við að það sé niðurstaðan og það sé viðhorfið og þeir eru orðnir vanir slíku. Kaupfélagið fór á hausinn. Það er búið að selja mjólkursamlagið. Flugvöllur er ekki lengur. Kísilgúrverksmiðjan er í uppnámi. Fiskiðjusamlagið er ekki lengur sjálfstætt félag á Húsavík og þar fram eftir götunum. Það hefur fleira gerst. Menn munar því um hvert atvinnutækifæri, hverja stofnun og hvert fyrirtæki sem er heima í héraði. (Gripið fram í.) Það er kjarni málsins. Menn munar um það.

Þess vegna er óhjákvæmilegt að tala um þessi mál, ekki aðeins í samhengi við atvinnulíf og atvinnuuppbyggingu í Aðaldal heldur líka í sambandi við atvinnulíf og atvinnuuppbyggingu í Mývatnssveit og líka --- af því hv. þm. brosti að því hér fyrr í dag --- líka í sambandi við uppbyggingu á stóriðju við Húsavík, þ.e. ef þar risi álverksmiðja.

Við erum annars vegar að tala um byggðamál. Hins vegar erum við að tala um umhverfismál. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að læra að lifa með náttúrunni. Við eigum að virða hana og við eigum að ganga eins vel um hana og við getum og við eigum að reyna að vera sjálfbær í því.

Þó ég segi að almennur vilji sé í Þingeyjarsýslu fyrir því að virkjunin verði rekin áfram og þó ég segi að virkjunin hafi verið rekin í sátt við umhverfið, sem hvort tveggja er rétt, þá hefur Steingrímur J. Sigfússon líka rétt fyrir sér þegar hann segir að í Aðaldal og á bökkum Laxár og Mývatns og á Húsavík séu deilur um þetta mál og flokkadrættir byrjaðir um það hvort hækka megi stífluna. Það er mjög dapurlegt ef þeir flokkadrættir verða svo harðir áður en niðurstaða rannsókna liggur fyrir, áður en við sjáum til hvaða úrræða sé hægt að grípa, að menn geti ekki hopað til baka, að ekki sé hægt að liðka fyrir málinu af því að menn hafi ekki afl og menn hafi ekki kjark í sér til þess að gefa eftir til að ná sáttum og meiri hagsmunum. (SJS: Hverjir eru að rífa ...?) Hv. þm. var að því hér áðan.

Nú skulum við koma að öðru. Við skulum aðeins velta fyrir okkur af hverju við erum að tala um að þetta verði löglegt? Við erum að tala um það vegna þess að ekki verður ráðist í umhverfismat nema heimilt verði að ráðast í framkvæmdina. Þetta er augljóst, öllum mönnum augljóst. Í því sambandi skulum við rifja upp að það er verið að tala um sandgildru í Kráká og tilgangurinn með því er sá að ef hún gæfi góða raun þá þyrfti stífla ekki að vera jafnhá og ella mundi til þess að ná sömu áhrifum niður við Brúar. Þess vegna eru menn að tala um þessa sandgildru í Kráká. Á þessari stundu vita menn auðvitað ekki nákvæmlega hversu miklu hún mundi koma til vegar. Það er líka athyglisvert að málið er svo skammt á veg komið að ekki er búið að tala við landeigendur eins og ég sagði áðan. En þetta sýnir með öðru að menn eru að leggja sig fram um að bjarga þessari virkjun og menn eru að reyna að leggja sig fram um að vernda náttúruna á þessu svæði.

Ég get vel sagt eins og Steingrímur J. Sigfússon: ,,Þá það ef Laxárvirkjun verður lögð niður. Þá skuluð þið bara opna gljúfrin að nýju og þá skulum við líka rífa stífluna upp við Mývatn.``

Nú er það þannig, og má færa rök fyrir því eins og hv. þm. veit, að þau miklu krapahlaup sem áður voru í Laxá, hreinsuðu ána og gáfu henni líf, hreinsuðu hana. En þessi hlaup, þessar miklu stíflur við upptök Laxár, ollu því líka að það urðu mjög miklar sveiflur í vatnsborðinu að vetri til upp í Mývatnssveit og það voru þessar sveiflur sem menn töldu skaðlegar fyrir vatnið og lífríki þess.

Nú getum við auðvitað sagt eins og hv. þm. að af því við hefðum ekki farið í Laxárvirkjun í dag þá skulum við rífa niður öll þessi mannvirki, rífa stífluna við Brúar og líka rífa stífluna upp við Mývatn og fá gömlu krapastíflurnar á nýjan leik. Þá komum við að enn öðru sem líka skiptir máli. Hvernig varð Mývatn til? Auðvitað með stíflu. Sú stífla var ekki úr steinsteypu heldur úr öðrum náttúrulegum efnum. Hið sama á við auðvitað um þau stöðuvötn sem við höfum að vatnið er lokað af. Það kemst ekki áleiðis. Það er ekki sírennsli.

Nú er auðvitað hægt að gera lítið og mikið úr þessu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði, þ.e. hann hafði ekki áhyggjur af sandburði í Laxá. Hann hafði ekki áhyggjur af honum. Þó liggur nú fyrir álitsgerð um að þessi sandburður hefur skaðað lífríki árinnar að því talið er. Ef maður t.d. leitar upplýsinga hjá Tuma Tómassyni þá er þess skemmst að minnast að hann lagði til að hækka stífluna við Brúar úr 7 metrum í 12 metra til þess að bæta búsvæði seiða í Laxá og lét þess jafnframt getið í sinni skýrslu að það hefði engin áhrif á urriðaveiðina í Efri-Laxá. Á hinn bóginn er það rétt að það kæmi þarna fallegt lón. En lífríkið heldur áfram. Náttúran breytist. Auðvitað erum við ekki að spilla lífríki. Það kemur lífríki í stað lífríkis. Við spillum lífríki í þeirri merkingu að lón sé á einum stað og ekki öðrum ef við leggjum veg, ef við byggjum hús. Við erum alltaf að spilla lífríki með því. Vegarstæðið fer yfir náttúruna og nær sér aldrei aftur. Maðurinn hefur mikil áhrif á umhverfi sitt.

En hvernig sem menn snúa þessu þá komast þeir ekki hjá því að verða að viðurkenna að til þess að við getum lifað í þessu landi þá verðum við að hafa traustan, sterkan og góðan orkubúskap. Laxárvirkjun var á sínum tíma mjög þýðingarmikil fyrir Norðurland, fyrir Þingeyjarsýslur og Akureyri þó menn geti skellt í góm í dag og sagt að það skipti svo sem ekki miklu máli þó hún verði lögð niður, þeir einu sem fyrir því verða verða nokkrar hræður í Aðaldal, það séu bara þeir þarna norður í landi sem muni missa lifibrauð sitt við það.

Landsvirkjun hefur verið að vinna mjög merkilegt starf upp í Krákárbotnum eins og raunar kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðaust., Steingríms J. Sigfússonar, sem m.a. veldur því að þar hefur sandburður minnkað verulega. Ég legg áherslu á að með því að halda ræktunarstarfi áfram, vinna þannig nýtt land, þá kunni að vera að það séu tiltæk ráð með sandgildru í Kráká til þess að stíflan geti af þeim sökum orðið lægri en menn hafa hingað til haldið fram. Ég vil líka minna á að sumir hafa haldið því fram --- ég er ekki tæknimaður --- að ef stífla verði fimm eða sex metrar þá sé það e.t.v. nægilegt til þess að það megi leysa þau vandamál sem til eru komin vegna kraps og vegna þess að grjót fellur inn í inntak virkjunarinnar.

Virkjun sem ekki er hærri en þetta er í námunda við, hærri eða lægri en þær hækkanir á stíflu þar sem áður hefur verið talað um á þessum slóðum og ástæðulaust er að gera stórmál úr því því það er það ekki. Það er auðvitað þannig að ef stífla hækkar þá auðvitað stækkar uppistöðulónið. Þetta er augljóst. En við erum ekki í slíku stagli hér. Þetta eru allt staðreyndir sem við kunnum. Það sem við erum að tala um er einungis þetta: Vill Alþingi samþykkja það að Landsvirkjun geti rætt það frjálst að leita leiða til þess að gera Laxárvirkjun arðsama að því tilskildu að það spilli ekki lífríki árinnar og umhverfisins? Og í öðru lagi: Getur verið að það sé rétt að stífla af þessari hæð, fimm metrar, ef við tölum um það --- þess vegna sex metrar, ég veit það ekki, ég er ekki verkfræðingur, ég veit ekki hvort hún þyrfti að vera átta metrar --- að stífla af þessari hæð bæti lífríki árinnar, Laxár, sem veitir ekki af að gera vegna þess að krapahlaupin sem áður voru eru þar ekki lengur?

Eins og ég sagði verður það ekki undir okkur komið hér á hinu háa Alþingi hvert framhald þessa máls verður nema við stöðvum málið þegar í fæðingu og ætlum að standa á móti því að heimamenn geti rætt það við Landsvirkjun hvort þessa virkjun megi reka áfram eða hvort við viljum gefa grænt ljós á það að Landsvirkjun leggi sínar áætlanir fyrir og þær verði dæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat og kostir þeirra og gallar ræddir við heimamenn, við landeigendafélagið.

Ég hef heyrt að margir töldu að ég hefði verið hægfara í deilunni gömlu og ég tel eins og þá að landeigendafélagið geti vel bjargað sér sjálft. Við þurfum ekki að hafa vit fyrir því. Eins og frv. er hér lagt fyrir þá er skýrt kveðið á um að samþykki landeigendafélagsins þurfi til. Það er skýrt kveðið á um það. Mér þykir það þess vegna satt að segja undarlegt ef einhverjir hér á hinu háa Alþingi ætla sér að hafa vit fyrir landeigendafélaginu.