Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:44:17 (4513)

2004-02-23 18:44:17# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því hv. þm. ræddi hér nokkuð um tilurð Mývatns þá má upplýsa þeim sem það er ekki kunnugt að það er um 2.300 ára gamalt og myndað af svonefndu Laxárhrauni yngra sem er mikið hraun sem rann úr Lúdents- og Þrengslaborgum og Borgum í Grænavatnsbruna fyrir u.þ.b. þetta mörgum árum síðan. Þetta er 220 ferkílómetra hraun sem rann um Laxárdal og allt til sjávar og eitt með öðru gerir þetta svæði jafneinstakt og raun ber vitni. Reyndar er ástæða til að ætla að allmikið vatn eða vötn hafi verið á þessum slóðum fyrir, þ.e. eldra Mývatn sem sjá má m.a. af gervigígum miklum sem eru í hrauninu.

Í öðru lagi nefndi hv. þm. Halldór Blöndal það að ég hafi farið hratt yfir sögu varðandi hlut Jóhanns Hafsteins í sáttatilraunum í Laxárdeilu. Það er að sönnu rétt að þáv. hæstv. ráðherra, Jóhann Hafstein, aðhafðist nokkuð til að leita sátta en þó var það allt mjög á forsendum stjórnar Laxárvirkjunar og hennar óska. Vandi hæstv. ráðherra var m.a. sá að samráðherra hans, Ingólfur Jónsson, hafði gefið út virkjanaleyfi í september 1969 og ríkisstjórnin var auðvitað með það í farteskinu í öllum sínum umleitunum. Hitt hafði nokkur áhrif að ágætur náttúruverndarsinni og bróðir Jóhanns Hafsteins, Jakob Hafstein, reyndi ítrekað að miðla málum og hafa áhrif á bróður sinn.

Það gengur auðvitað ekki að reyna að setja þetta mál þannig upp að það sé á nokkurn hátt vænlegt upphaf að samkomulagi um lagfæringar á Laxárvirkjun að flytja þetta ákvæði hér í andstöðu við þá sem samkomulagið þarf að takast við, þ.e. stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Það liggur fyrir að ákvæði til bráðabirgða III er flutt í óþökk þeirra og í andstöðu við þá þannig að með því hrynur allur málatilbúnaður hv. þm. gjörsamlega til grunna.