Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:50:18 (4516)

2004-02-23 18:50:18# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Halldór Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. var skýr. Hann er sammála mér um það að rétt sé að athuga um það að hækka Laxárstífluna. Hann talar um 3--5 metra, ég man ekki hvort ég komst upp í 6 eða kannski 8 metra. Það er nú allur munurinn.

Við erum sammála um að það eigi að leyfa umhverfismat og við erum líka sammála um það að rétt sé að binda það við það að Landeigendafélag Laxár og Mývatns samþykki hækkunina, enda er það í samræmi við gömlu sáttargjörðina.

Þá er deilumál okkar bara þetta: Eigum við að láta Alþingi ákveða hversu há stíflan megi vera og gefa þannig línuna, eða eigum við að láta landeigendur og Landsvirkjun ræða saman um á hvaða forsendum þeir séu reiðubúnir til þess að ráðast í þær endurbætur sem nauðsynlegar eru á stíflunni?

Við erum þá sammála um þá niðurstöðu. (Gripið fram í.) Menn fara auðvitað ekki í umhverfismat, leggja ekki í slíkan kostnað nema lagaheimildin sé fyrir hendi. Samningurinn sem í gildi er bindur Landsvirkjun. Það sem er gert með því að minnast hér sérstaklega á Landeigendafélag Laxár og Mývatns, ein ástæðan er sú að umhvrh. sá ástæðu til að leggja sérstaka áherslu á þetta atriði að staðið yrði við gömlu sáttargjörðina. Það að hafa þessi orð inni styrkir því stöðu landeigenda en veikir hana ekki eins og hv. þm. var að gefa í skyn.