Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:32:12 (4525)

2004-02-24 13:32:12# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Óumdeilt er að vöktun og þekking okkar á hafinu, fæðukeðjunni og fiskstofnum er nauðsyn ef við eigum að geta verið dómbær á nýtingu fiskimiðanna til framtíðar. Þaðan höfum við jú fengið þær tekjur sem eru undirstaða þess að við lifum í nútímaþjóðfélagi.

Nú hagar svo til að mjög margt er að breytast í náttúrufari sjávar. Sjávarhiti hefur hækkað mikið við landið og einkum hefur sjávarhitinn á norðurmiðum hækkað á síðustu þremur til fjórum árum. Enn þá bendir flest til þess að sjávarhitinn haldi áfram að vera hár og útbreiðsla hlýsjávar við Ísland verði mikil.

Þegar höfum við séð miklar breytingar í fiskigengd og útbreiðslu fisktegunda, t.d. mikla og vaxandi útbreiðslu á norðurmiðum sem ekki er lát á að því er séð verður. Skötuselur veiðist víða við landið þar sem hans varð eigi vart áður og langan færir sig einnig norður á bóginn. Allt eru þetta vísbendingar um að hafið sé að hlýna og hitafar þess og straumar öðruvísi en síðastliðin 30--40 ár. Þetta breytilega hitafar sjávar hefur sjálfsagt átt sinn þátt í að erfitt hefur reynst að fylgja eftir loðnugöngum og kortleggja útbreiðslu og magn loðnunnar. Margt er í óvissu vegna breytinganna.

Það má t.d. spyrja: Hvaða áhrif mun mikill og vaxandi kolmunnastofn hafa á aðra fiskstofna, t.d. síld og loðnu? Hvernig verður það samspil? Það má einnig spyrja: Hvaða áhrif verða af mikilli fjölgun hnúfubaks hér við land? Hvað gerist ef hafið norðan og norðvestan við Ísland verður íslaust og með hærra hitastigi en áður hefur sést?

Á tímum breytinga í hitafari og lífríki sjávar er enn nauðsynlegra að auka rannsóknir. Þar komum við að úthaldi þeirra hafrannsóknarskipa sem við eigum og getum notað mun meira til fjölmargra verkefna sem bíða. Okkar best búna skip, Árni Friðriksson, verður samkvæmt skipaáætlun gerður út í alls 203 daga á þessu ári og fer næst til rannsókna 26. apríl ef upplýsingar mínar reynast réttar. Af heildarúthaldinu fara 65 dagar í landgrunnsrannsóknir á Suðurdjúpi. Það er vissulega áhugavert verkefni sem tengist kröfum okkar til landgrunnsréttinda.

Nýverið var farið í aukaleiðangur til loðnurannsókna sem bættist við áðurnefnda 203 úthaldsdaga. Vonandi verður ekki skorið niður á móti þeirri viðbót. Sá leiðangur gaf mikla aukningu á loðnuveiðum og hefði verið dýrt ef sá leiðangur hefði ekki verið farinn. Það er svo önnur líffræðileg spurning hvort við þurfum ekki meiri fæðu fyrir botnfiskstofna okkar samfara hlýnandi sjó.

Bjarna Sæmundsson á að gera út í 183 daga og Dröfn í aðeins 76 daga, þar af fara 15 dagar í skólaskipsrekstur. Þarf ekki að forgangsraða upp á nýtt og fylgjast grannt með þeim miklu breytingum sem eru að verða hér við land á hafsvæðinu og fiskigöngum?

Nefna mætti mörg verkefni sem mikil nauðsyn væri að sinna. Sem dæmi má nefna að leita þarf svara við spurningunni: Hvert fer þorskurinn með hækkandi sjávarhita og hvaða breytingar verða á hafstraumum í Grænlandssundi og Norðurdjúpi?

Nýlega kynntu fræðingar nýjan hafstraum norðvestur af landinu. Það kom stundum fyrir að þar sem átti að vera austurstraumur, eins og út af Vestfjörðum, lá straumurinn í suðvestur og vestur, djúpt í kantinum. Þetta vissu skipstjórar og að annar straumur gæti verið djúpt. En um sjógerðina vissum við alls ekki. En þessi mikli straumur gat vissulega gefið fisk.

Hæstv. sjútvrh. sagði 11. nóv. í fyrra að fjármagn yrði til staðar í rannsóknir og úthald rannsóknarskipanna. Þessi orð féllu í umræðu um nýjan verkefnasjóð sjávarútvegsins á hv. Alþingi. Nú finnst mér liggja mikið við að auka úthald og rannsóknir. Þess vegna var óskað eftir þessari umræðu. Oft var þörf en nú er nauðsyn að vita hvað er að gerast í hafinu.

Spyrja mætti: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir að nota Árna Friðriksson við stofnmælingar á botnfiski í mars? Hann á að liggja í höfn á þeim tíma. Hvers vegna liggur hann ónotaður í höfn meðan hægt væri að nota skipið og spara fjármagn í annað til víðtækari rannsókna?