Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:37:06 (4526)

2004-02-24 13:37:06# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. málshefjanda að það hefði verið dýrt ef Árni Friðriksson hefði ekki farið leiðangurinn sem hann nefndi, þriðja leiðangurinn eftir áramótin, til að mæla loðnustofninn. En aðalatriðið í því er að sá leiðangur var farinn og skipti okkur gríðarlega miklu máli.

Hv. þm. vakti athygli á breytingum í hafinu í kringum okkur og vakti upp margar áhugaverðar spurningar sem því tengjast. Hann spurði einnig hvort rétt væri að breyta forgangsröðun við hafrannsóknir. Því er til að svara að Hafrannsóknastofnun sér í megindráttum um forgangsröðun verkefna. Hún hefur að mínu viti skilað mjög góðu verki við að nýta þá fjármuni sem hún hefur haft til að rannsaka það sem brýnast er og nauðsynlegast á hverjum tíma. Hins vegar er aldrei svo að við getum ekki komið með hugmyndir eða uppástungur um rannsóknarverkefni til viðbótar.

Það er heldur ekki þannig að stöðnun hafi verið í veitingu fjármuna til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun á undanförnum árum. Frá árinu 1999 hafa fjármunir til rekstrar og rannsókna aukist. Sé það ekki talið með sem fer í viðhald eða stofnkostnað, erlendir styrkir, utanaðkomandi rannsóknarstyrkir eða sérstök framlög, hafa þeir fjármunir hækkað úr 982 millj. kr. í 1.097 millj. kr. á síðasta ári. Þetta er hækkun um 16,5%.

Ef við tökum viðhalds- og stofnkostnað með, auk sérstakra framlaga, en ekki sértekjur eða áðurnefnda utanaðkomandi styrki þá hefur aukningin á sama tímabili verið 20%.

Ef við tökum rannsóknir sjávarútvegsins eða sjútvrn. í heild þá hefur aukningin á sama tímabili orðið 23%. Ef við skoðum tölur um raunveruleg rekstrar- eða rannsóknarverkefni þá fara væntanlega ríflega 1.100 millj. kr. til þeirra verkefna á þessu ári. Þegar viðhalds- og stofnkostnaður er talinn með nálgast það að vera 1.200 millj. kr. Þegar sjávarútvegurinn í heild og stofnanir og rannsóknir á vegum hans eru skoðaðar eru það u.þ.b. 1,5 milljarðar sem vænta má að verði til ráðstöfunar á þessu ári. Þessu til viðbótar kemur 500 tonna þorskeldiskvóti sem úthlutað er til rannsókna.

Á þessu tímabili hefur verið um tvenns konar megináherslur að ræða í sjávarútvegsrannsóknum. Í fyrsta lagi varðandi endurnýjun og viðhald á skipaflota Hafrannsóknastofnunar. Árni Friðriksson, hið nýja rannsóknarskip, kom til landsins árið 2000 og Bjarni Sæmundsson var endurnýjaður haustið 2002 og fram á árið 2003. Hann kom þá í nýju og betra formi til starfa á ný. Síðustu tvö ár hefur verið lögð áhersla á að auka rannsóknir til að auka verðmæti sjávarfangsins. Það endurspeglast í tölunum sem ég var að fara með. Eftir því við hvað er miðað hefur aukningin frá árinu 1999 til síðasta árs verið á bilinu 16--23%.

Það er þannig með rannsóknir, herra forseti, að það er ekki endilega betra að auka þær mjög hratt. Þegar það hefur verið gert er reynslan sú að rannsóknirnar hafi oft á tíðum þynnst út. Það sem skiptir máli er að stígandi sé í aukningu fjármuna í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja hjá þeim stofnunum sem með þessi mál fara. Stofnanirnar geta þannig þróast, styrkt tækjabúnað sinn og mannafla jafnt og þétt í samræmi við þau verkefni sem þær þurfa að takast á við. Þannig hefur verið reynt að halda á málum.

Ég held, herra forseti, að hv. þingmenn þurfi ekki að hafa sérstakar áhyggjur af stöðu þessara mála. Hins vegar er það alltaf svo í rannsóknum að okkur geta komið til hugar ný áhugaverð verkefni sem ástæða væri til að skoða og rannsaka. En við verðum að forgangsraða og skoða það sem skiptir okkur mestu máli. Í okkar tilfelli hefur ekki skort á það.