Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:51:29 (4531)

2004-02-24 13:51:29# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), GHj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Guðjón Hjörleifsson:

Herra forseti. Hafrannsóknir eru grunnurinn að því að byggja upp þekkingu um hafið og lífríki þess, sérstaklega til þess að geta metið það hvernig hagkvæmast er og skynsamlegast að nýta auðlindir hafsins. Það er mikilvægt að við treystum þeim aðilum er hafa menntun og þekkingu til þess að stunda þessar rannsóknir.

Hin síðari ár ber að fagna þeirri breytingu sem orðið hefur varðandi sterkari tengsl við sjómenn og almenning með skipulögðum fundarhöldum og skoðanaskiptum og ekki síður auknu aðgengi að upplýsingum Hafrannsóknastofnunar með hjálp nútímatækni svo sem vel útbúinnar heimasíðu.

Ég er í miklu sambandi við sjómenn og það hefur verið sérstaklega gaman að fylgjast með bergmálsmælingum á stofnstærð loðnu og síldar og því góða samstarfi og sátt sem Hjálmar Vilhjálmsson leiðangursstjóri hefur átt við skipstjórnarmenn. Ég vil samt sem áður lýsa áhyggjum mínum og margra loðnusjómanna af flottrollsveiðum á loðnu, sérstaklega á grunnslóð.

Ekki má gleyma stóru verkefni bæði vor og haust, hinu svokallaða togararalli þar sem gerðar eru árlegar stofnmælingar á botnfiskstofnum svo dæmi séu tekin. Ég tel að Hafrannsóknastofnun hafi fullt traust landsmanna til þeirra verka sem þar eru unnin.

Herra forseti. Upplýsingaskylda um niðurstöður rannsókna, tillögur og annað tilheyrandi hefur komist vel til skila til almennings og hæstv. sjútvrh. hefur tekið ákvarðanir um aflahámark með tilliti til veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar svo að ákvarðanirnar eru teknar á faglegum nótum en ekki pólitískum.

Að baki niðurstöðum slíkra rannsókna og ákvarðana liggja mjög margþættar athuganir. Þar erum við sem dæmi að ræða um rannsóknir á umhverfisskilyrðum í sjónum, rannsóknir á líffræði nytjastofna sjávar, stofnstærðarrannsóknir og mat á áhrifum veiða á fiskstofna og umhverfi þeirra, hitastig sjávar og veðurfar og veiðarfærarannsóknir, svo eitthvað sé nefnt.

Samhliða hafrannsóknum hefur verið stofnaður sjóður til þess að stuðla að auknu verðmæti sjávarafurða. Sjóðurinn mun fá 1,5 milljarða á næstu fimm árum. Árið 2001 var útflutningsverðmæti sjávarafurða 130 milljarðar og er niðurstaða starfshóps hæstv. sjútvrh. að með auknu rannsóknar- og þróunarstarfi sé raunhæft markmið að útflutningsverðmæti geti orðið um 240 milljarðar á rúmum áratug.

Grunnurinn að sóknarfærum okkar í sjávarútvegi er hafrannsóknir og vísindaleg veiðistýring sem hefur að langtímaleiðarljósi sjálfbæra nýtingu fiskstofnanna þar sem framtíðarsýn okkar hlýtur að vera að láta lífríkið njóta vafans þegar ákvarðanir um aflahámark eru teknar.