Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:53:45 (4532)

2004-02-24 13:53:45# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan að hv. þm. Jón Gunnarsson hefði haldið því fram að hér tækju menn ákvarðanir byggðar á vísindalegri þekkingu við nýtingu fiskstofna en hv. þm. Jón Gunnarsson bætti því við að hann teldi svo ekki vera, sú þekking væri ekki nægileg, þannig að ég leiðrétti það hér með.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri Hafró sem forgangsraðaði hvað varðar vísindarannsóknir. Það kann að vera að það sé í mörgum tilfellum svo en samt liggur það fyrir að vilji Hafrannsóknarstofnunar eða sérfræðinga þar, t.d. til þess að rannsaka loðnustofninn, hefur ekki náð fram að ganga. Það kom fram í sjútvn. um daginn að þar telja menn að fimm ára rannsóknarferil þurfi til þess að ná upp þeirri þekkingu sem þarf að vera til staðar á loðnustofninum. Og skipið, þetta nýja glæsilega skip, Árni Friðriksson, liggur í höfn flesta daga ársins. Það er því ekki verið að nýta hann og ekki önnur skip heldur með þeim hætti sem hægt væri.

Þó svo að hæstv. ráðherra haldi því fram að menn megi ekki auka rannsóknir mjög hratt þá held ég að t.d. hvað varðar loðnurannsóknir og auknar rannsóknir á síldinni, sem týndist nú í tvö ár, hljóti að þurfa að fara býsna hratt af stað svo menn sitji ekki uppi með sama vandræðaganginn og búinn er að vera í vetur gagnvart loðnu og var tvö árin þar á undan gagnvart síldinni og reyndar loðnunni líka.

Ég held að menn þurfi að spýta í lófana og gera hlutina betur og hraðar en verið hefur fram að þessu til að hafa þær upplýsingar sem menn nota þó alla vega til að taka ákvarðanir um veiðar á þessum stofni. Hver veit hvort ein mæling þar sem menn ná þeirri niðurstöðu sem þeir ætluðu að fá sé endilega rétt?