Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 14:02:18 (4536)

2004-02-24 14:02:18# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég held að hér hafi farið fram afskaplega jákvæðar umræður og uppbyggilegar á flestan hátt. Ég held að menn verði hins vegar að hafa í huga þegar verið er að tala um áherslur og forgangsröðun að það eru ekki hlutir sem maður breytir í einu vetfangi. Rannsóknir flestar hverjar byggja á löngum undirbúningi og eru langtímarannsóknir með mæliröðum sem þarf að fylgja vel eftir.

Ég kannast ekki við hugtakið ,,fullkomnar rannsóknir`` sem hv. þm. Jón Gunnarsson notaði. Rannsóknir eru einmitt þess eðlis að það er ekkert fullkomið í þeim og það er alltaf um leitina að þekkingunni að ræða. Við erum alltaf að reyna að bæta okkur.

Hv. þm. spurði sérstaklega um verkefnasjóðinn. Hv. þm. á að vita það því hann var viðstaddur þegar ég lýsti því yfir að Hafrannsóknastofnun fengi ekki minni fjármuni vegna þeirra fjármuna sem þangað koma úr verkefnissjóðnum á þessu ári, sem áður var kallaður hafrósjóður, en á síðasta ári.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon velti fyrir sér úthaldsdögunum og hvernig þeim er skipt niður. Frá því að Árni Friðriksson kom hefur orðið breyting á því hvernig þeim dögum er raðað niður á skipin og fleiri dagar eru núna nýttir á Árna Friðrikssyni, okkar stærsta og fullkomnasta skipi, en á minnsta skipinu, Dröfninni. Þegar farið var í að byggja Árna Friðriksson var einmitt gert ráð fyrir því að reka bara tvö skip. Enn sem komið er höfum við ekki treyst okkur til að gera þá breytingu, án þess að ég viti hvað verður síðar, við erum enn þá með þrjú skip í rekstri.

Herra forseti. Við erum að gera vel í okkar fiskirannsóknum og viljum bæta þar úr. Ég mun leggja mig fram um að ná í fjármuni til þeirra verka sem ég tel að séu nauðsynleg á hverjum tíma og ég tel að fram að þessu hafi ekki skort fjármuni til þeirra verkefna sem nauðsynleg eru.