Breyting á XII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 14:04:51 (4537)

2004-02-24 14:04:51# 130. lþ. 70.1 fundur 611. mál: #A breyting á XII. viðauka við EES-samninginn# (greiðslur yfir landamæri í evrum) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Það er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni sjálfri og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri reglugerð sem hér um ræðir. Þessi ákvörðun kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Hvað varðar efnisatriði málsins nægir að nefna að með þessari ákvörðun er verið að fella inn í EES-samninginn reglugerð Evrópusambandsins um greiðslur yfir landamæri í evrum. Reglugerðin kveður á um að gjöld fyrir greiðslur yfir landamæri í evrum skuli vera þau sömu og gjöld fyrir greiðslur í evrum innan lands. Jafnframt skulu upplýsingar um kostnað við greiðslur milli landa vera aðgengilegar og mælt er fyrir um ráðstafanir til að auðvelda færslu fjármuna yfir landamæri.

Í viðskrn. er nú unnið að innleiðingu þessarar gerðar.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.