2004-02-24 14:06:50# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta eftirtalda samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands, Jan Mayen o.fl.

1. Samning milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003.

2. Samning milli Íslands og Grænlands/Danmerkur um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003.

3. Tvíhliða samkomulag milli Íslands og Noregs sem gert var í Reykjavík 9. júlí 2003.

Loðnuveiðar á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen hafa á undanförnum árum farið fram á grundvelli þríhliða samnings milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs og tvíhliða samninga milli landanna sem gerðir voru í Reykjavík 18. júní 1998.

Í ljósi þess að ekki var útlit fyrir að samningar næðust um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir árið 2003 vegna afstöðu norskra stjórnvalda töldu íslensk stjórnvöld óhjákvæmilegt að taka aðra fiskveiðisamninga milli landanna til endurskoðunar. Var loðnusamningunum því sagt upp 30. október 2002 og féllu þeir úr gildi 1. maí 2003.

Hinn 26. júní síðastliðinn tókst samkomulag milli Íslands og Noregs um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003. Í kjölfar þess var gengið frá nýjum þríhliða loðnusamningi milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs og tvíhliða samningi milli Íslands og Grænlands/Danmerkur í Reykjavík 8. júlí sl. og tvíhliða samningur milli Íslands og Noregs og milli Grænlands/Danmerkur og Noregs daginn eftir.

Samningarnir eru nánast samhljóða samningunum frá 1998, en þó gilda þeir aðeins til eins árs í upphafi í stað þriggja ára áður og framlengjast sjálfkrafa, sé þeim ekki sagt upp með a.m.k. sex mánaða fyrirvara, um aðeins eitt ár í senn í stað tveggja ára áður.

Í þríhliða samningnum felst að hlutdeild landanna í leyfilegum heildarafla af loðnu er óbreytt frá fyrri samningi. Hlutur Íslands er 81%, hlutur Grænlands 11% og hlutur Noregs 8%. Sem fyrr er ákvörðun leyfilegs heildarafla í höndum íslenskra stjórnvalda náist ekki samkomulag milli aðila þar að lútandi.

Í tvíhliða samningunum er eins og áður kveðið á um gagnkvæmar heimildir aðila til aðgangs til loðnuveiða í lögsögu hvers annars, en í samningnum milli Íslands og Grænlands/Danmerkur er sem fyrr einnig kveðið á um gagnkvæman aðgang að lögsögu Íslands og Grænlands til veiða á úthafskarfa.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.