2004-02-24 14:14:50# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að það er kannski ástæða til þess að við fáum aðeins ítarlegri yfirferð á því frá hæstv. ráðherra hvernig samningamálin standa. Við höfum í sjálfu sér ekki annað betra við tímann að gera því að við ræðum hér fyrst og fremst samninga sem þegar hafa runnið sitt skeið á enda eða eru lagðir fyrir mjög seint á gildistíma sökum sérstaks ástands sem vissulega hefur komið fram hvert er, að það skapaðist í raun og veru það andrúmsloft á síðasta ári að samningar tókust ekki um norsk-íslensku síldina og í kjölfar þess var sagt upp þríhliða samningum milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur og tvíhliða samningum við Ísland og Noreg um loðnuveiðarnar. Síðan var samningurinn framlengdur þegar loksins komst á samkomulag um tilhögun síldveiðanna á síðustu vertíð og þann samning ræddum við á Alþingi fyrir nokkrum dögum, þá þegar úr gildi fallinn, því hann tók einungis til ársins 2003. Þá var framlengdur eða endurnýjaður óbreyttur samningur, þríhliða samningur um skiptingu loðnustofnsins milli landanna. Ef ég skil málið rétt gildir hann til eins árs í senn og framlengist sjálfkrafa um eitt ár hafi honum ekki verið sagt upp sex mánuðum fyrir lok gildistíma, í maímánuði, þannig að væntanlega er þegar kominn á nýr samningur fyrir vertíðina á næsta ári nema tilkynning hafi verið send um annað. Sú staða gæti því komið upp að samningurinn gilti á næstu vertíð um loðnustofninn þó að engir samningar tækjust um síldveiðina.

[14:15]

Kannski væri ástæða til að hæstv. utanrrh. færi aðeins betur yfir það hvernig hann metur stöðuna í þessum efnum. Mig langar einnig til að spyrja út í samskipti okkar við Grænlendinga. Hér er fylgiskjal sem tengist tvíhliða samningi Íslands og Grænlands um veiðiskipti í loðnu og karfa og aðgangi hvors lands um sig að lögsögu hins. Ýmis önnur samskipti við Grænland á sviði sjávarútvegsmála hvað varðar sameiginlega stofna eru, það ég best veit, enn óleyst. Lengi hefur ástandið ekki verið nógu gott í þeim efnum milli þessara næstu nágranna, Íslands og Grænlands, og ekki hafa tekist samningar um ýmis stór sameiginleg hagsmunamál ríkjanna. Þannig hefur það verið um grálúðu og rækju og eitthvað fleira sem okkur er sameiginlegt á lögsögumörkunum.

Hafi það ekki breyst nú allra síðustu árin, sem út af fyrir sig kann að vera án þess að ég hafi veitt því athygli, væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra um hvernig þau mál standa, þar á meðal ágreiningur sem skapast af því að Grænlendingar hafa endurnýjað fiskveiðisamninga við Evrópusambandið og selt þeim hlutdeild í sameiginlegum stofnum án nokkurs samkomulags við Ísland um þá samninga. Það er auðvitað ekki nógu gott ástand í sjálfu sér að nýting á sameiginlegum stofnum sé í ósætti að þessu leyti til og annar aðilinn selji jafnvel veiðiheimildir til utanaðkomandi aðila án þess að nokkurt heildarsamkomulag liggi fyrir. Á þetta reyndu Íslendingar að hafa áhrif á sínum tíma, m.a. með því að takmarka löndunarmöguleika erlendra skipa sem stunduðu veiðar úr þessum stofnum, og mætti margt um þá sögu alla saman segja. Ég er ekki endilega að óska eftir því að hæstv. ráðherra rifji þá sagnfræði upp, heldur að gefa okkur aðeins yfirlit yfir það hvernig þessi samskipti standa. Það hefur a.m.k. verið þeim sem hér talar lengi nokkur þyrnir í augum að það skuli hafa gengið jafnböksulega og -seint og raun ber vitni að klára þessi mál milli Íslands og Grænlands. Það er í raun og veru alls ekki nógu gott að svoleiðis skuli hafa staðið andstætt við ágætissamkomulag okkar við Grænlendinga þar sem yfirleitt hefur tekist að útkljá öll mál (Gripið fram í: Við Færeyinga.) við Færeyinga, meinti ég, þar sem yfirleitt hefur tekist að útkljá öll mál í góðu samkomulagi, þar á meðal og ekki síst landhelgismörk nú nýlega. Það er enginn vafi á því að báðar þjóðirnar hafa haft mikla hagsmuni og notið góðs af því að þær hafa yfirleitt náð að leysa sín mál þannig, þ.e. þegar í hlut eiga samskipti Íslands og Færeyja. Auðvitað njótum við þess, Íslendingar, í því að hafa verið nógu stórir í sniðum til þess að leyfa Færeyingum að halda nokkrum veiðiheimildum innan íslensku efnahagslögsögunnar eftir að hún var færð út. Það hefur síðan skilað sér margfalt í mjög góðum samskiptum þessara þjóða, þar á meðal skipti Íslendinga miklu máli að hafa aðgang að færeysku lögsögunni á þeim árum sem ekki náðust samningar um norsk-íslensku síldina. Það hefur skipt máli í kolmunnaveiðum og öðru slíku.

Samskiptin á fiskveiðisviðinu við Grænland eru líka geysilega mikilvæg og kunna að eiga eftir að verða það í jafnvel enn ríkari mæli en áður hefur verið. Þar nefndi hv. síðasti ræðumaður möguleikann á aukinni þorskgengd á Grænlandsmiðum á nýjan leik. Margt bendir til þess að ef þróunin verður áfram með svipuðum hætti og hún hefur verið núna allra síðustu ár hvað varðar breytingar á sjávarhita í norðaustanverðu Atlantshafinu gæti verið í vændum uppgangstími í bolfiskveiðum á Grænlandsmiðum á nýjan leik, sambærilegur við þann sem leiddi af hlýindakaflanum upp úr 1920 og fram um 1960. Reyndar eru horfur nú taldar mun vænlegri innan fárra ára á því að umtalsverðar þorskveiðar, þ.e. á öðru en fjarðaþorski, geti hafist aftur við Grænland. Það eru áfram miklir sameiginlegir hagsmunir í grálúðu- og rækjustofnum, karfa og fleiru slíku. Ég get tekið undir það með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að áhugavert væri að fá frekari upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvernig þessi mál standa í almennu samhengi.