2004-02-24 14:32:49# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Herra forseti. Sá fiskveiðisamningur sem hér er til umræðu, milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs, um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen, er að mörgu leyti svolítið merkilegur samningur, alla vega sögulega séð. Þetta er samningur sem Norðmenn náðu á sínum tíma eftir að þeir komu svolítið aftan að okkur með stórfelldum veiðum við Jan Mayen á áttunda áratugnum. Það má segja að þeir hafi sprengt sér leið að þessum samningi. Þeir skutu okkur skelk í bringu og við gengum til samninga við þá á sínum tíma. Síðan hefur þessi samningur haldist nokkurn veginn óbreyttur alla tíð síðan þó að Norðmenn hafi nánast aldrei veitt loðnu síðan þá í Jan Mayen lögsögunni.

Fyrir utan þá ósvinnu að Norðmenn skuli halda þessari svokallaðri fiskveiðilögsögu sinni í kringum Jan Mayen, eldfjallaeyju sem er nánast óbyggð, sem ætti í raun ekki að hafa nema 12 mílna lögsögu í kringum sig, helst enga lögsögu og enga Norðmenn þar á grundu heldur, heldur vera sameiginleg eign Íslendinga og Grænlendinga og allt hafsvæðið þar í kring, tel ég að þessi samningur ætti tafarlaust að fara til gagngerðrar endurskoðunar. Norðmenn hafa allt of stóran hlut í loðnunni, þessi 8% sem þeir hafa. Þeir hafa hreinlega engan rétt til þessara 8%, langt í frá.

Mig langar að benda á annað, þ.e. að það er á vissan hátt líffræðileg ástæða til að losna við Norðmenn af miðunum. Þá á ég við sumarloðnuveiðarnar sem eiga sér stað í hafinu norður af Íslandi. Norðmenn taka stærstan hluta af loðnukvótum sínum á hverju ári á þessum sumarloðnuveiðum. Þar er verið að veiða loðnu sem er í æti, loðnu sem er að fita sig mjög hratt. Eina leiðin til að nýta þann gríðarlega lífmassa sem verður til í hafinu norður af Íslandi á hverju sumri og færa upp að ströndum Íslands, þar sem hann nýtist bæði í fæðukeðjunni og einnig til veiða og verðmætasköpunar fyrir íslenska fiskiskipaflotann, líka þann norska, grænlenska og færeyska, er að hann sé að verulegu leyti látinn í friði á sumrin, að við séum ekki að veiða þessa loðnu.

Ég tel brýnt að dregið verði úr loðnuveiðum um sumartímann norður af Íslandi. Það er hreinlega heilbrigð skynsemi að draga eins og við getum úr þessum veiðum. Sem betur fer hefur það gerst á undanförnum árum hvað varðar íslenska flotann. Íslensku skipin hafa fundið nýja auðlind, kolmunnann og hafa í síauknum mæli verið upptekin við veiðar á honum um sumartímann og þar með sparað sér loðnuna og frekar veitt hana á haustin og veturna þegar hún er miklu verðmætara hráefni.

Ég tel að það væri vert að athuga hvort ekki væri hægt að fíra niður þessum prósentum hjá Norðmönnum í 4% og setja þeim þá reglu, þann stólinn fyrir dyrnar eða hvernig sem túlka má það, að þeir megi einungis stunda veiðar frá 1. október ár hvert. Þá er loðnan fyrir Austfjörðum. Í dag eru reglurnar þannig að þeir mega ekki fara suður fyrir 65 gráður 30 mínútur norður, ef ég man rétt, sem er strik nokkurn veginn beint austur úr Gerpi. Við ættum þá frekar í staðinn að leyfa þeim að halda áfram veiðum þar til loðnan er komin vestur fyrir, t.d. að Stokksnesi.

Ég tel að við ættum að endurskoða þennan loðnusamning við Norðmenn, að nú sé tækifærið. Ég hef í sjálfu sér ekki voðalega miklar áhyggjur af því þó að þeir fyrtist við og hóti okkur öllu illu. Það hafa þeir svo sem gert fyrr en sjaldan orðið mikið úr því.

Þetta snýst að sjálfsögðu um miklu stærri mynd, eins og hæstv. utanrrh. benti réttilega á. Það eru fleiri fiskveiðisamningar við Norðmenn. Norðmenn hafa beitt því á okkur áður að hóta öllu illu, setja allt í uppnám, segja upp öllum samningum og senda jafnvel á okkur herskip ef við förum ekki eftir því sem þeir vilja.

Nú er mikilvægur samningur í uppnámi, þ.e. samningurinn um norsk-íslensku síldina. Því miður er hann í uppnámi vegna óbilgirni Norðmanna.

Mig langar í þessu sambandi að rifja upp að sumarið 1996, þegar fyrst var samið um skiptingu norsk-íslensku síldarinnar á milli Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Íslendinga, var gerð mjög merkileg bókun. Sú bókun var og er vonandi enn talin söguleg, þ.e. bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi. Þar komu þjóðirnar sér í fyrsta skipti saman um að haga sér eins og siðmenntað fólk hvað varðar nýtingu á sameiginlegum fiskstofnum. Í þessari bókun eru t.d. ákvæði um að aðilar skuli skiptast á aflaskýrslum mánaðarlega og tilgreina og sundurliða þessar upplýsingar á veiðisvæði eftir þörfum. Þar segir og:

,,Aðilar skulu hefjast handa um að setja samræmdar verndunarreglur um veiðar úr stofninum.

Aðilar skulu auðvelda og efla samstarf við eftirlit til að tryggja að verndunarreglum verði fylgt.

Aðilar skulu leitast við að ná samkomulagi við aðra aðila, sem hlut eiga að máli, til að koma á heildarstjórnun veiða úr stofninum.``

Ég túlka anda þessarar bókunar --- þótt eflaust megi túlka þetta og teygja í allar áttir --- m.a. með þeim hætti að norskum stjórnvöldum hafi borið að láta íslensk stjórnvöld vita af því þegar íslenskt skip varð uppvíst að vélvæddu brottkasti á stórsíld á Svalbarðasvæðinu í sumar. Þar var á ferðinni íslenskt skip með íslenskri áhöfn undir íslenskum fána sem veiddi úr íslenskri hlutdeild í þessum sameiginlega fiskstofni. Það var staðið að alvarlegum fiskveiðiafbrotum ef marka má skipherra norsku strandgæslunnar.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh.: Voru íslensk stjórnvöld látin vita af þessu tilviki strax í sumar af norskum stjórnvöldum? Ef svo er, hvers vegna var þá ekki brugðist strax við með því að kæra útgerð og skipstjóra þessa skips? Hér var um alvarlegt afbrot að ræða ef marka má vitnisburð norska skipherrans.

Hafi norsk stjórnvöld ekki látið íslensk stjórnvöld vita af þessu tilfelli þegar það átti sér stað, hafa þeir þá ekki gerst brotlegir við þessa bókun frá 6. maí 1996? Mér finnst þetta í raun stórmál sem snýst um trúverðugleika íslenskra stjórnvalda út á við, þ.e. að íslensk stjórnvöld sýni og sanni að þau séu fær um að bregðast harkalega við alvarlegum fiskveiðiafbrotum þegar þau verða, ef þeim er kunnugt um þau að sjálfsögðu. Ef stjórnvöldum er kunnugt um málið frá hendi Norðmanna þurfum við að sýna að við séum trúverðugir.

Hafi málinu hins vegar verið stungið undir stól og það kannski látið falla í gleymsku af hálfu íslenskra stjórnvalda þá er það að sjálfsögðu líka grafalvarlegt mál.