2004-02-24 14:44:49# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Umræður um samninga um nýtingu fiskstofna við önnur ríki eru gagnlegar fyrir okkur. Við þurfum skýra stefnu í þeim málum. Ég tel að menn þurfi að fara yfir málin heima fyrir líka. Það virðist vera að renna upp fyrir mönnum, vísindamönnum og öðrum, að breytileiki lífríkisins sé meiri en haft hefur verið í huga þegar við höfum verið að gera samninga um nýtingu fiskstofna. Ég hef fyrir mitt leyti alltaf haft fyrirvara við þá hugsun að mat á veiðireynslu tiltekinna fárra ára ráði því út í eilífðina hvernig eigi að skipta verðmætum af þessu tagi.

Ég tel heppilegra fyrir okkur Íslendinga, sem höfum mikið og gott hafsvæði í kringum landið með öflugu lífríki, að byggja slík samskipti við aðrar þjóðir fyrst og fremst á mati á hlut þess lífríkis sem viðkomandi þjóð hefur yfir að ráða í að viðhalda viðkomandi stofnum fremur en veiðireynslu og landamærum milli landa. Veiðireynslan byggist fyrst og fremst á því hverjir voru í útgerð á einhverjum tiltölulega fáum árum.

Allir vita að í kringum árið 1960 kólnaði sjór við Ísland. Nú virðist sem sú kólnun sé að ganga til baka. Menn muna eftir því að áður en kólnaði við Ísland eða um það leyti og áður stunduðu menn miklar þorskveiðar á Grænlandsmiðum. Þorskveiðar á Grænlandsmiðum gætu þess vegna orðið arðbærar innan fárra ára.

Jafnframt muna allir eftir síldinni, hvernig hún gekk á Íslandsmið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel, og tek undir með hæstv. utanrrh., óskaplega mikilvægt að góður andi og samstarfsvilji ríki milli þeirra þjóða sem eiga hlut að máli hvað varðar nýtingu lífríkisins í hafinu í nágrenni við okkur og á þeim miðum sem við eigum möguleika á að nýta. Inn í þann samningsanda finnst mér að við eigum fyrst og fremst að leggja hugmyndir byggðar á almennum reglum sem við getum bætt við til að breyta samningum. Menn mega ekki festast í ævagömlum niðurstöðum veiða sem farið hafa fram á einhverjum tíma. Við þurfum að geta breytt því. Við þurfum að geta byggt veiðistjórnina á breytingum sem verða í lífríkinu.

Við getum ekki ætlast til að fá að veiða eins og okkur lystir úr einhverjum stofni sem kannski veiðist ekki á okkar miðum um aldur og eilífð af því að við veiddum einhvern tíma úr honum. Norðmenn geta ekki ætlast til að fá að veiða norsk-íslensku síldina áfram ef hún fer að ganga með sama hætti á Íslandsmið og gerðist áður. Ef við eigum að geta eignast hlutdeild í þorskinn á Grænlandsmiðum þá verður að vera vilji af þessu tagi fyrir hendi. Mér finnst að Íslendingar þurfi að vera sveigjanlegir. Ég held að við höfum ekki endilega orð á okkur fyrir það. Ég held að við höfum t.d. sýnt verulega mikla hörku. Ég er ekki að gagnrýna það að menn hafi gengið hart fram í að ná hlutdeild í kolmunnaveiðunum. En ég hef grun um að sumum finnist að við höfum verið býsna harðskeyttir í því efni. Það kann að hafa áhrif á eitthvað af því sem menn eru að fást við núna.

Allt þetta þarf að hafa í huga. Ég segi því að ég er sammála þeim anda sem hæstv. ráðherra lagði inn í umræðuna, að við verðum að hafa góð samskipti við þessar þjóðir. En það þýðir ekki að þeir geti byggt á því kröfur sínar um að nýta stofna um alla framtíð á grundvelli ástands sem komið hefur upp í lífríkinu, t.d. því að norsk-íslenska síldin lenti í þeirri lægð sem hún hefur verið í. Þetta þurfa menn að hafa í huga.

Mig langar síðan að leggja orð í belg í sambandi við umræðuna um brottkast. Ég verð að segja að það vekur hjá mér undrun ef upplýsingar um brottkast á miðum þar sem Norðmenn hafa eftirlit berast ekki til Íslands. Mér finnst að fara þurfi yfir þau mál með Norðmönnum, hvernig á því stendur, og sjá til að þær upplýsingar berist. Þar þarf ekki að vera á ferðinni sannað brot um stórfellt brottkast heldur upplýsingar sem koma að gagni til að Íslendingar geti gert sér grein fyrir því hvað er að gerast á miðunum. Það þarf sannarlega að velta fyrir sér hvort hafa þurfi eftirlitsmenn um borð í þessum skipum. Það er ekki gott fyrir okkur, hvað varðar samskiptin við þær þjóðir sem við erum hér að tala um og við eigum samninga við, ef við stöndum okkur ekki í eftirliti með okkar skipum. Við berum ábyrgð á þeim þó að þau séu utan landhelgi á veiðum á miðum sem þau hafa rétt til að veiða. Þetta er mikilvægt.

Ég tel ástæðu til þess að hæstv. utanrrh. komi skýrt til skila til Alþingis upplýsingum um hvernig Norðmenn líta á þetta mál og kippi því í liðinn ef eitthvað vantar upp á að þeir telji sér skylt að koma upplýsingum um slíka hluti til okkar. Við þurfum að geta sinnt þar eftirliti.