2004-02-24 15:28:33# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Frú forseti. Héðan úr ræðustólnum hafa heyrst ýmsar athyglisverðar athugasemdir um örlög norsk-íslenska síldarstofnsins á sínum tíma. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék m.a. að því.

Það er mjög flókið að reyna að gera sér grein fyrir því sem gerðist með síldina í lok sjöunda áratugarins, þegar hún hvarf með skelfilegum afleiðingum fyrir okkur Íslendinga og reyndar Norðmenn líka. Þeir byggðu stóran hluta af sinni afkomu sinni á þessum stóra fiskstofni í Norður-Atlantshafi. Sennilega fóru hér saman ofveiði og óhagstæð umhverfis- og næringarskilyrði í hafinu.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það en ég vil fá að nota tækifærið til að benda á að eitt af þeim mikilvægustu spilum sem menn hafa á hendi þegar þeir sitja við samningaborðið, við samninga um fiskstofna við aðrar þjóðir, sérstaklega flökkustofna, eru gögn sem sýna útbreiðslu og göngur viðkomandi stofns, á hvaða hafsvæðum hann hefur haldið sig missirin á undan. Það er síðan lagt til grundvallar því hvernig hugsanlega beri að skipta viðkomandi fiskstofni.

Fyrr í dag fór fram umræða um hafrannsóknir, úthald hafrannsóknarskipa og forgangsröðun í hafrannsóknum. Sú umræða var í sjálfu sér ágæt og mjög þörf að sjálfsögðu. Þar er víða pottur brotinn eins og greinilega kom fram.

[15:30]

Mig langaði til að benda hér á að í skipaáætlun Hafrannsóknastofnunar fyrir þetta ár er afskaplega litlum tíma varið í það að kanna göngur og útbreiðslu síldarinnar eða hreinlega að rannsaka síld yfir höfuð. Það stendur hér að dögunum 25. maí til 3. júní, þ.e. rétt rúmum hálfum mánuði, eigi að verja í það að halda úti Árna Friðrikssyni við síldarrannsóknir í Austurdjúpi. Það er allt og sumt. Punktur. Þetta er allt og sumt sem við Íslendingar ætlum að leggja undir til þess að reyna að afla okkur mikilvægrar vitneskju um göngu síldarinnar á þessum mikilvæga tíma þegar hún er að leita eftir hrygningu frá vesturströnd Noregs út í hinar miklu víðáttur hafsins á milli Íslands og Noregs, á Svalbarðasvæðinu, í hinni svokölluðu Síldarsmugu, og svo sannarlega vonandi inn í íslenska landhelgi á sínar fornu sumarslóðir fyrir Norðurlandi.

Mér finnst það alveg ótækt varðandi stofn þar sem svona miklir hagsmunir liggja undir að ekki skuli vera varið meira púðri í að fylgjast með göngum síldarinnar. Það er alveg ljóst, frú forseti, að við Íslendingar höfum gersamlega, ef svo má segja, klikkað í þessu efni á undanförnum árum og þar hljóta íslensk stjórnvöld að bera þunga ábyrgð. Það hefur allt of lítið verið fylgst með göngum norsk-íslensku síldarinnar í hafinu um sumartímann á undanförnum árum, nánast ekki neitt.

Ég hef á vissan hátt skilning á því að það sé dýrt að halda úti rannsóknaskipi sólarhringum saman. Ég bendi á það að hægt er að nota önnur skipt til að kanna síldargöngur. Það er hægt að leigja fiskiskip með tiltölulega litlum tilkostnaði, halda þeim úti með tiltölulega litlum mannskap. Þessi skip eru öll búin asdic-tækjum og dýptarmælum, yfirleitt trolli, búnaði til að taka rannsóknartog. Það þarf ekki að kosta svo ofboðslega mikla peninga að fylgjast með þessum hlutum, láta skip krussa yfir hafið og fylgjast með síldinni. Og síðan fylgjast vel með því hvar veiðiflotinn er að athafna sig á hverjum tíma. En málið er bara það að hafið er stórt, veiðiflotinn er ekki svo ofboðslega stór í skipum talið og yfirleitt er það svo að þegar menn finna síld þá þjappa þeir sér saman á sömu bleyðurnar og hætta sjálfkrafa leit og einbeita sér að veiðum. Það er ósköp eðlilegt.

Hið sama má segja um loðnuna, frú forseti. Við verjum allt of litlum bæði tíma, peningum og fyrirhöfn í það að fylgjast með loðnunni. T.d. skortir okkur algjörlega rannsóknir, loðnurannsóknir um sumartímann. Við vitum sáralítið hvað er að gerast í hafinu norður af Íslandi þó að það sem gerist þar sé í raun og veru nánast grundvöllur alls lífs umhverfis Ísland, ef svo má segja. Það má færa fyrir því sterk rök. Þar höfum við Íslendingar gersamlega vanrækt að stunda mjög mikilvægar rannsóknir. Rannsóknir sem kæmu okkur að notum í fiskveiðistjórn, rannsóknir sem kæmu okkur að notum hvað varðar t.d. samningaviðræður við Norðmenn.

Þriðji stóri stofninn sem ég vil benda á þar sem gríðarlegir hagsmunir eru einnig í húfi, er kolmunninn. Þar höfum við líka stundað allt of lítið af rannsóknum. Ég sé bara hreinlega ekki þegar ég kasta augum yfir skipaáætlanir, bæði Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar, að það standi til að rannsaka kolmunna eitthvað sérstaklega. Jú, hérna er það, Bjarni Sæmundsson er víst settur í kolmunnarannsóknir frá 13. júlí til 30. júlí. Hann á líka að gera eitthvað sem heitir hljóðstaðsetning GPS-merkja. Það er nú allt og sumt, frú forseti, hvað varðar blessaðan kolmunnann þar sem aldrei hafa náðst neinir samningar og allt er í uppnámi. Menn tala um að það sé mikil ofveiði o.s.frv. en enginn veit í raun og veru hvað er að gerast. Enginn veit í raun og veru neitt sem heitið getur um göngur eða útbreiðslu kolmunnans, t.d. í íslenskri efnahagslögsögu. Það hefur sjaldan eða aldrei verið kannað hvort það sé t.d. einhver kolmunni vestan línu sem draga má suður á bóginn frá Vestmannaeyjum, hvort einhver kolmunni sé í köntunum út af Vesturlandi eða jafnvel út af Vestfjörðum eins og heimildir í eldri vísindagreinum fiskifræðinga benda til að geti verið.

Það er því kannski ekkert voðalega skrýtið að við skulum alltaf sitja nánast eins og þursar í samningaviðræðum við til að mynda Norðmenn þegar við mætum svo illa undirbúnir til leiks. Við höfum einfaldlega ekki reiknað heimadæmin okkar. Við kunnum einfaldlega ekki þá lexíu. Og þá er það ekkert skrýtið, frú forseti, að það gangi kannski illa að ná samningum þegar við getum ekki barið í borðið með rannsóknagögn sem við höfum sjálfir safnað, beitt okkar færustu vísindamönnum til að safna, vitum að eru gögn sem við getum stólað á, vitum alla vega hverjir eru veikleikar þeirra gagna, en tökum kannski í staðinn við rannsóknagögnum frá Norðmönnum sem þeir hafa sjálfir aflað án þess að við höfum verið með í för og við vitum í raun og veru voða lítið um hversu rétt eru, hverjir eru þeirra veikleikar. Ég er ekki fullyrða það að Norðmenn séu að mæta til samningafunda með fölsuð gögn, alls ekki. En ég hef sjálfur tekið þátt í svona hafrannsóknaleiðöngrum. Ég hef tekið þátt í svona bergmálsmælingum, ég hef tekið þátt í síldarleit og loðnuleit, meira að segja stjórnað loðnuleit Norðmanna norður af Íslandi tvö ár í röð. Ég veit því nokkurn veginn eða alla vega eitthvað um það við hvaða vandamál er að eiga þegar verið er að leita að fiskstofni, uppsjávarstofni sem er kannski á fleygiferð um eitthvert ákveðið hafsvæði, stundum er hann alveg í yfirborðinu, aðra tíma er hann niðri í sjó. Það eru mörg vandamál. Það er að mörgu að huga. Og það er alveg ljóst að við náum ekki þessum upplýsingum með því að sitja í landi og velta þar hverri einustu krónu, sýknt og heilagt verið að spara aurana og kasta krónunum. Það er það sem við höfum að verulegu leyti og oft og tíðum verið að gera á undanförnum missirum. Ekki kannski við, afsakið, ég mismælti mig, íslensk stjórnvöld.