Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:10:56 (4566)

2004-02-24 16:10:56# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ef ummæli mín hér í svörum við andsvörum hæstv. umhvrh. eru mesti útúrsnúningur sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur heyrt á ævi sinni þá verð ég að segja að hann hefur ekki hlustað mikið á sjálfan sig. Þá hefur hv. þm. ekki lagt eyrun glöggt við þegar hann hefur rætt um hluti eins t.d. framganga hans í umræðum bæði í gær og í dag sýnir glöggt.

Það virðist alveg fyrirmunað að koma hv. þm. í skilning um það sem er hið einfalda í þessu máli, að framkvæmdir af þessu tagi, sem fela í sér hækkun vatnsborðsins ofan inntaksmannvirkjana efst í Laxárgljúfrum, eru bannaðar samkvæmt gildandi lögum. Heimamenn vilja ekki breyta þeirri stöðu enda er hún niðurstaða af samkomulagi eftir hina hatrömmu deilu á sínum tíma. Þeir vilja ekki opna fyrir það að af stað fari nýtt deiluferli. Það blasir við hverjum manni að svo færi ef jafnógæfulega heldur fram sem horfir eftir að málið hefur verið tekið upp á nýjan leik með þessum hætti.

Ég hef engan áhuga á því. Ég tel það engum til farsældar að stofna þarna á nýjan leik til mjög langvinnra og hatrammra deilna. Ég held að það sé augljóst að til þeirra muni koma ef Landsvirkjun ætlar að halda áfram að knýja á um þessa framkvæmd. Menn vita vel að hún hefur haft mikinn áhuga á henni. Það er ekkert nýtilkomið. Það hefur lengi legið í loftinu og verið farið á ýmsar fjörur í sambandi við það. Ég held að menn eigi ekki að hætta á að slík atburðarás fari af stað.

Þess vegna eiga menn að vinna heimavinnuna sína og ná samkomulagi um þær aðgerðir sem samkomulag getur orðið um. Þá er tímabært að heimila þær með lögum en fyrr ekki. Annars erum við bara að opna fyrir elda í málinu.