Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:31:00 (4570)

2004-02-24 16:31:00# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég er á móti því að hækka stífluna sem í reynd er verið að leggja til með frv. að Landsvirkjun fái heimild til. Ég er mjög sammála hv. þm. sem talaði áðan að frv. er ógætilegt. Ég er einfaldlega á móti málinu vegna þess að ég er sammála því sem hv. þm. sagði áðan að þetta er ekki svæðisbundið hagsmunamál. Þetta er mál sem ekki varðar bara Alþingi, heldur þjóðina alla.

Lyktir á deilum sem stóðu fyrir mörgum áratugum urðu með þeim hætti að ákveðið var að hrófla ekki við þessu svæði, aldrei, nema að fulltrúar þjóðarinnar tækju um það sérstaka ákvörðun. Ég er einfaldlega á móti því að sú ákvörðun verði tekin. Ég tel að þarna sé um að ræða einstaka náttúruperlu sem eigi að vera í núverandi ástandi, sameign íslensku þjóðarinnar. Svo einfalt er það í mínum huga.

Mér þykir það svo sæta tíðindum þegar hv. formaður iðnn. talar með svo skörulegum hætti gegn meginefni frv. Hv. þm. sagði að hann mundi kalla fyrir fulltrúa Landsvirkjunar í iðnn. til að leita eftir áformum þeirra. Ég spyr hv. þm.: Ganga menn gruflandi að því hvað Landsvirkjun áformar? Hún ætlar sér að sjálfsögðu að hækka stífluna til að fá meira út úr þessu. Ég spyr því hv. þm.: Gætu einhverjar frekari upplýsingar af hálfu Landsvirkjunar orðið til þess að breyta þeirri afstöðu sem hv. þm. hefur sett fram? Ég spyr vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að það er sennilega ekki auðvelt að vera þingmaður Framsfl. með þá afstöðu sem hann tjáði. Ég ímynda mér að það verði sest á hann með miklum þunga til að fá hann til að breyta henni.