Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:03:43 (4585)

2004-02-24 18:03:43# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég kannast ekki við þessar dýralíkingar en hafi ég misst eitthvað ... (Umhvrh.: Api Landsvirkjunar.) Nei, það er nú ekki dýralíking, hæstv. forseti, heldur úr Hávamálum. Margur verður af aurum api, og ekki verið að líkja mönnum við dýr þar heldur eðliseinkenni sem höfundar Hávamála geta kannski skýrt betur en ég.

Varðandi hina brýnu hagsmuni þá hefur hæstv. umhvrh. ekki skýrt þá enn þá. Hún talar um vélar og um endurnýjun upp á 700 millj. kr. Hvað þýðir það? Hver er arðsemin núna og hver verður arðsemin þá? Hvað verður Laxárvirkjun lengi að vinna sig upp? Það þýðir ekki að koma með eina tölu sem hæstv. umhvrh. hefur heyrt hér á göngunum nánast. Það verða að koma fram plögg sem sýna okkur þetta svart á hvítu.

Það er hægt að fara í rannsóknir á sandinum. Það er alveg rétt. Og það getur vel verið að þær rannsóknaniðurstöður leiði til þess að menn telji þörf á að sækja um leyfi til Alþingis, ef það þarf, til að fara í tilteknar framkvæmdir á svæðinu, til að hækka stífluna um eitthvað smávegis eða breyta inntaksmannvirkjunum, sem ekki hefur verið gert í 30 ár af einhverjum dularfullum ástæðum.

Þá tekur Alþingi á því þegar þar að kemur, einkum ef um það tækist sátt meðal virkjunarmanna og landeigenda á svæðinu. Ég geri ráð fyrir að ef slík sátt tækist, þannig að fullt jafnræði ríkti milli þeirra sem um það fjalla, þá mundi ekki standa á Alþingi, hvorki á hæstv. umhvrh. né okkur sem stöndum á móti þessari heimskulegu stífluhækkun og því bráðabirgðaákvæði sem á að leyfa hana. Það mundi ekki standa á okkur að taka það til mjög jákvæðrar og góðfúslegrar athugunar.