Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:37:13 (4594)

2004-02-24 18:37:13# 130. lþ. 70.6 fundur 247. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn fanga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er sjaldnar en hitt sem ég sé ástæðu til að standa upp og taka sérstaklega undir þingmál sem hv. þm. Sjálfstfl. flytja. Ég sé ástæðu til þess nú. Öll þau rök sem hv. þm. hefur flutt við þetta mál eru mjög góð. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er verið að mismuna á grundvelli efnahags. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því að þeir sem hafa lítið fé á milli handanna, geta ekki greitt fésekt og þurfa þess vegna að sitja í fangelsi, hafi ekki möguleika á reynslulausn ef brot þeirra falla almennt undir ákvæði þau sem gilda um reynslulausn.

Ég tel að mjög farsælt skref hafi verið stigið þegar tekið var upp ákvæði um reynslulausn, og full ástæða er til að endurskoða ákvæði þeirra laga og víkka út gildissviðið um reynslulausn. Það hlýtur að taka nokkurn tíma að skoða það og ég er sammála hv. þingmanni um að það sé engin ástæða til að bíða með að þetta frv. nái fram að ganga og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að svo verði. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt er málið núna flutt í þriðja sinn og því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað mælti á móti því að málið yrði afgreitt úr nefnd? Voru einhverjar umsagnir þess eðlis að þær gæfu tilefni til að málið sofnaði í nefnd eins og svo títt er um þingmannafrumvörp?