Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:39:09 (4595)

2004-02-24 18:39:09# 130. lþ. 70.6 fundur 247. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn fanga) frv., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. s. fyrir jákvæðar undirtektir við þetta mál. Mér finnst það gefa okkur tilefni til að ætla að hægt verði að ná um þetta nokkuð víðtækri pólitískri sátt, enda hafa viðbrögðin við málinu ekki verið á aðra lund en þá að það gefur fullt tilefni til að ætla það.

Málið fór á sínum tíma til allshn. en fyrir einhverjar ástæður sem ég kann ekki skýringar á var það því miður ekki sent til umsagnar. Þess vegna hafa umsagnir ekki legið fyrir eftir því sem ég best veit. Málið beið alllengi í allshn. og það var aðgæsluleysi af hálfu þess sem hér stendur að hafa ekki fylgst með því hvort málið færi til umsagnar. Það hefði verið auðveldara að ljúka málinu ef umsagnirnar hefðu legið fyrir frá síðasta þingi. Svo er hins vegar ekki. Það reyndi ekki á hina efnislegu afstöðu. Ég hef hins vegar orðið var við að þetta mál hefur vakið nokkra athygli í almennri umræðu. Ég hef skrifað um það greinar, vakið athygli á því og fengið talsvert mikil viðbrögð þannig að ég tel að við þetta mál sé mjög almennur stuðningur víða úti í þjóðfélaginu, ekki síst meðal lögfræðinga sem hafa staðið frammi fyrir því að flytja mál sem lúta að þessu, hafa upplifað þessa reynslu þegar menn eru í raun og veru settir í þá stöðu að hafa ekki af fjárhagslegum ástæðum möguleika á því að kaupa sér frelsi, ef þannig má að orði komast. Ég hygg þess vegna að um þetta mál geti náðst víðtækur stuðningur, ekki bara á Alþingi heldur úti í þjóðfélaginu.