Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:40:46 (4596)

2004-02-24 18:40:46# 130. lþ. 70.6 fundur 247. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn fanga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er fegin að heyra að ekki hafa komið fram neikvæðar umsagnir í garð þessa frv. Það er heldur engin ástæða til vegna þess að hér er mjög gott mál á ferðinni. Engu að síður vil ég nefna að mál þetta er flutt í þrígang og það er mjög sérkennilegt vinnulag í þingnefndum, ósiður reyndar, að líta þannig á þingmannamál að þau eigi bara að sofna í nefnd, alveg sama hversu góð málin eru. Það að mál hafi ekki einu sinni verið sent til umsagnar eins og hv. þm. upplýsir hér þó að það hafi í tvígang áður verið flutt á þingi er auðvitað fyrir neðan allar hellur.

Herra forseti. Það þarf auðvitað að fara að ræða það sérstaklega hvers vegna þingmannamál --- hér er jú löggjafarsamkoma --- fá ekki eðlilega umfjöllun í nefnd. Á því þarf að gera bragarbót og ég vil bara loks segja að ég vona sannarlega að þetta mál fái núna aðra umfjöllun í nefnd en það hefur gert á tveim síðustu þingum.