Meðlagsgreiðslur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:53:08 (4600)

2004-02-24 18:53:08# 130. lþ. 70.7 fundur 311. mál: #A meðlagsgreiðslur# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta hið athyglisverðasta mál sem hér er komið fram en harma að það skuli ekki fá ítarlegri og meiri umræðu en þetta. Hér er á ferðinni þjóðþrifamál, tel ég vera, mál sem er ágætlega unnið en hætt er við að það fái ekki frekari umfjöllun í þinginu en við erum að verða vitni að núna.

Ég tel mjög mikilvægt að efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar fari mjög rækilega í saumana á því.

Ég hef ekki verið mikið gefinn fyrir það sjálfur að veita undanþágu frá skattalögum en ég tel að hér komi fram mjög sannfærandi rök varðandi skattfrelsi meðlagsgreiðslna, því að eins og segir í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Í hugum flestra er meðlag foreldris með barni ekki tekjur viðtakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins. ... Illskiljanlegt er því að takmarka undanþágu frá tekjuskatti við tvöfalt meðlag, en gera meðlagsgreiðslur umfram það skattskyldar.``

Ég vildi spyrja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvenær þetta mál hefði komið fram áður --- ég skildi það svo á máli hennar að þingmál af þessu tagi hefði áður komið fram og þá væntanlega gengið til nefndar --- og hver örlög þess máls hefðu verið og hvort hún þekki til gagnrýni sem komið hafi fram á m.a. þau atriði sem ég vék að hér, að líta beri ekki á meðlag foreldris sem tekjur viðtakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins.