Gjaldþrotaskipti o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 19:06:50 (4603)

2004-02-24 19:06:50# 130. lþ. 70.8 fundur 333. mál: #A gjaldþrotaskipti o.fl.# (greiðsluaðlögun) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[19:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þetta vandaða þingmál sem hér liggur fyrir. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á það sér langa sögu. Árið 1993 þegar hv. þm. var félmrh. var skipuð nefnd. Sú nefnd skilaði áliti 1994 og það er rakið í greinargerð með frv. hvernig aðrar Norðurlandaþjóðir hafa sett löggjöf af þessu tagi. Norðmenn voru fyrstir 1984 og síðan Danir 1993. Það kemur fram í greinargerðinni að þessi lög hafa gefið mjög góða raun.

Einnig er vísað til þess að lögin hafi helst orðið til að koma til hjálpar fólki með mjög lágar tekjur. Hér segir t.d. í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt rannsóknum Norðmanna er sá hópur sem lent hefur í erfiðleikum fyrst og fremst fólk með mjög lágar tekjur og skuldir sem eru 5--6 sinnum meiri en almennt gerist. Margir þeirra sem sótt hafa um greiðsluaðlögun eru fráskilið fólk með börn undir 18 ára aldri á sínu framfæri.``

Það er sorglegt til þess að vita að frv. af þessu tagi skuli ekki fá ítarlegri umfjöllun í þinginu. Að sjálfsögðu verðskuldar frv. umræðu í þingsal en mestu máli skiptir hvernig því reiðir af þegar það kemur til nefndar. Ég vil spyrja hv. 1. flm., Jóhönnu Sigurðardóttur, hvernig hún skýri það að þetta þingmál skuli koma fram á 125., 127. og 128. þingi og svo aftur á þessu þingi án þess að það nái fram að ganga. Hver er skýringin á þessari tregðu? Hvar liggur fyrirstaðan að mati hv. þm.?