Varnir gegn dýrasjúkdómum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:32:32 (4606)

2004-02-25 13:32:32# 130. lþ. 71.91 fundur 354#B varnir gegn dýrasjúkdómum# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég tek hér til máls þar sem mér finnst ástæða til að vekja athygli þingsins á þeim alvarlegu dýrasjúkdómum sem hafa verið að gera vart við sig víðs vegar um heiminn á undanförnum vikum og missirum, samanber kúariða, svínapest, gin- og klaufaveiki og fuglaflensa. Sérstök ástæða er til að varast þá dýrasjúkdóma sem borist geta í menn í gegnum snertingu við dýr og neyslu matvæla.

Nú herjar mjög skæð fuglaflensa á mörg lönd í Asíu með alvarlegum afleiðingum fyrir líf og heilsu manna og dýra. Sjúkdómar sem þessir geta hæglega dreifst með milliríkjaviðskiptum og er full ástæða til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja líf og heilsu íslenskra neytenda og gæta jafnframt hagsmuna íslensks landbúnaðar. Á þessu ári hef ég sett tvær auglýsingar sem ég vil gera þingmönnum grein fyrir sem árétta bann við innflutningi á tilteknum vörum frá Asíu og nú síðast Bandaríkjunum þar sem annað afbrigði af fuglaflensu er nú komið upp.

Hæstv. forseti. Í síðustu viku stóð yfir mikil matarveisla hér í borginni ,,Food and Fun``, framtak sem hefur vakið gríðarlega athygli. Hinir fjölmörgu erlendu gestir sem sótt hafa þessa hátíð hafa óspart lofað þann landbúnað sem hér er stundaður, fjölskyldubúskapinn þar sem velferð dýra og heilnæmi afurðanna er í fyrirrúmi.

Reynslan hefur því miður sýnt, hæstv. forseti, að með auknum ferðum fólks og sífellt vaxandi flutningi afurða milli landa geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er. Því er full ástæða til að ferðafólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum kynni sér gaumgæfilega þær hættur sem steðjað geta að vegna dýrasjúkdóma erlendis og leitist við að haga ferðum sínum og ekki síður viðskiptum í samræmi við þá mikilvægu þjóðarhagsmuni sem hreinleiki íslensks landbúnaðar er fyrir fólkið í landinu.