Varnir gegn dýrasjúkdómum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:44:23 (4612)

2004-02-25 13:44:23# 130. lþ. 71.91 fundur 354#B varnir gegn dýrasjúkdómum# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka þær undirtektir og ábendingar sem fram hafa komið og þann skilning hv. þm. á því mikilvægi að verja Ísland, íslenska neytendur, ekki síður en okkar heilbrigðu dýr og landið frá ýmsum plágum sem hafa geisað. Gerum okkur grein fyrir því að fuglapestin sem nú geisar um víða veröld er bara eitt dæmi. Kúariðan hefur farið frá Evrópu til Bandaríkjanna og Kanada og við verðum að fara með fullri gætni hvar sem við erum.

Af því að hv. þm. Jón Bjarnason spurði er eitt mikilvægasta atriði EES-samningsins að halda öllum okkar undanþágum þannig að við þurfum ekki að yfirtaka þær reglur sem gilda í Evrópu. Þá væri hér frjálst flæði á vörum sem okkur gætu verið mjög hættulegar eða lifandi dýrum þannig að þar verður haldið fast um taumana.

Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu vinar míns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Nú skilur hann að landbrn. er mikilvægt. Ég þakka þær góðu undirtektir sem hér hafa komið fram. Stundum liggjum við á upplýsingum og tökum ákvarðanir sem kannski þingið veit ekki um. Ég vildi því skýra þingheimi frá þessum auglýsingum og þeirri vinnu. Það er margt að gerast í þessu. Hér fer fram viðbragðsáætlun í sumar á vegum yfirdýralæknis sem verið er að undirbúa. Við þurfum að búa okkur undir það versta til að geta tekist á við það.

Það er líka gaman að fylgjast með umræðunni um hinn hreina íslenska mat, finna viðbrögð íslenskra neytenda en ekki síður gestanna sem hingað koma og dást að búskap okkar. Ég minntist á eina hátíð sem er lokið. Fram undan er hátíðin Matur 2004 í Kópavogi, þar sem er gott að búa, þannig að það verður mikið um að vera sem snýr að íslenskum neytendum og landbúnaði á næstunni.

Ég þakka fyrir, hæstv. forseti.