Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:48:24 (4613)

2004-02-25 13:48:24# 130. lþ. 71.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þetta mál gangi til 2. umr. og til hv. umhvn., enda flutt af hæstv. umhvrh. Hæstv. ráðherra hafði sjálf um það orð undir lok umræðunnar í gær að ástæða væri til að nefndin skoðaði þetta mál mjög vel, m.a. í ljósi þeirra umræðna sem urðu hér um það á tveimur dögum.

En það kom einnig fram í umræðum að formaður iðnn. sá ástæðu til að óska eftir því að iðnn. fengi tækifæri til að fara yfir þann þátt málsins sem snýr að orkumálum og raforkuframleiðslu og stöðu þeirra mála eins og þau blasa við rekstraraðila virkjunarinnar, Landsvirkjunar, þannig að ég vil koma þeirri ósk formlega á framfæri að umhvn. sendi iðnn. málið eða a.m.k. þann þátt þess til umsagnar sem lýtur að raforkuframleiðslu á svæðinu og tengist einkum og sér í lagi hinu mjög svo títtrædda ákvæði til bráðabirgða III í frv.

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli á því vegna orða hv. þm. að hér er verið að greiða atkvæði um það hvort frv. eigi að ganga til 2. umr. Tillaga um hvert beri að vísa því er ekki fram komin.)