Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:03:05 (4618)

2004-02-25 14:03:05# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er spurt um mál sem lýtur að undirstöðum samfélags okkar sem er heilbrigðisþjónustan og jafn réttur og jafn aðgangur allra landsmanna að heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu. Í allri þeirri umræðu er brýnt að halda því til haga og þess vegna beini ég þeirri spurningu til ráðherra hvort hann sé nokkuð á þeirri vegferð og alveg örugglega ekki að fara að taka upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir þá efnameiri þar sem þeir geta keypt sig fram fyrir hvers konar biðraðir eftir læknisþjónustu og aðgerðum, og annað lakara fyrir þá sem lestina reka og hafa ekki fjármagn og bolmagn til að kaupa sig fram fyrir biðraðir og kaupa sér hvers konar rándýra lúxusþjónustu.

Eins og allir vita hefur það verið mikill og stór draumur margra sjálfstæðismanna gegnum tíðina að taka upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir hina efnameiri og annað verra, opinbert, fyrir hina fátæku. Þetta hefur verið draumur sjálfstæðismanna en martröð okkar jafnaðarmanna.