Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:04:15 (4619)

2004-02-25 14:04:15# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við heyrum að ákveðin togstreita er á milli þeirra flokka sem stýra landinu í dag og hafa gert um nokkur ár. Framsfl. hefur spyrnt við fótum gagnvart ýmsu sem Sjálfstfl. virðist hafa troðið inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 1999 og aftur núna 2003.

Mig langar, virðulegi forseti, aðeins til að vekja athygli á því að í heilbrrn. eru starfandi svo margar nefndir um svo mörg málefni og svo mikil stefnumótunarvinna sem, því miður, virðist stundum fara sitt í hvora áttina, en til þess að hægt sé að ræða um einhver skil á milli kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu þarf að ljúka þessum störfum. Ráðherra hefur lagt áherslu á það en það er samt kominn tími til fyrir hæstv. ráðherra að samræma þetta starf og ljúka því svo hægt sé að fara í alvörustefnumótun.