Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:10:12 (4622)

2004-02-25 14:10:12# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Á 127. löggjafarþingi var ég 1. flm. þáltill. um heilsuvernd í framhaldsskólum. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig skipulagðri heilsuvernd fyrir ungt fólk verði háttað.``

Tillagan fékk afar jákvæðar umsagnir umsagnaraðila og afgreiddi hv. heilbr.- og trn. hana á þann veg að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar með þeim orðum, með leyfi forseta, að henni ,,megi finna stað í starfi á vegum heilbrigðisráðherra um þróun og skipulag verkefna heilsugæslunnar``.

Nokkrar aðrar þáltill. voru afgreiddar á þennan sama máta í sama þingskjali og má þar m.a. nefna tillögu um mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana, tillögu um unglingamóttöku og getnaðarvarnir og tillögu um átraskanir, en allar áttu þær það sammerkt að snerta heilsuvernd, heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu fyrir ungmenni.

Með þessari fyrirspurn leita ég upplýsinga hvernig vinnu miðar við heilsuvernd fyrir ungt fólk. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá afgreiðslu þáltill. hefur aukin áhersla verið lögð á opnun unglingamóttöku á heilsugæslustöðvum. Mér er hins vegar ekki kunnugt um árangur af starfi þeirra og hvort þær hafi náð þeim markmiðum sem að var stefnt. Vonandi mun hæstv. heilbrrh. koma að því í ræðu sinni.

Hins vegar er vitað að ungmenni hafa verið treg til að leita til heilbrigðisþjónustunnar með vanda sinn og sýna erlendar rannsóknir að besta leiðin til að styðja þau ungmenni sé að gera heilbrigðisþjónustuna aðgengilega fyrir þau á þeirra eigin heimavelli. Í ljósi þess að lög um framhaldsskóla kveða á um heilsugæslu fyrir þennan aldurshóp og að um 90% ungmenna sækja framhaldsskóla hefur það þótt heppilegt að aðgengi að heilsugæslu sé í skólunum sjálfum. Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar hér á landi með þetta form og hefur það gefist sérlega vel.

Í nýlegri rannsókn um aðgang að heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem prófessor Rúnar Vilhjálmsson hafði frumkvæði að, segir m.a. að mikilvæg leið fyrir heilsugæsluna til að nálgast ungmennin sé í gegnum skólana. Hér hafi Ísland þá sérstöðu í samanburði við mörg nágrannalönd að ekki sé boðið upp á nemendaheilsugæslu á framhaldsskóla- eða háskólastigi. Eðlilegt sé að hérlendis fari fram skipuleg athugun á því hvort og með hvaða hætti reglubundin heilsugæsla í framhaldsskólum og háskólum landsins geti verið fýsilegur kostur.

Á það skal jafnframt bent að í skýrslu starfshóps landlæknis frá árinu 2000 um börn og ungmenni með geðræn vandamál og þjónustu við þau utan sjúkrastofnana, er lögð sérstök áhersla á að auka heilbrigðisþjónustu við nemendur framhaldsskólanna, sérstaklega með tilliti til geðverndar og geðheilbrigðisþjónustu. Einnig verður að líta til þess að brottfall nemenda úr framhaldsskólum er töluvert og mikið áhyggjuefni. Það er talið eitt af alvarlegustu vandamálum innan menntakerfisins. Ljóst er að krakkar sem falla út úr framhaldsskólum standa margir frammi fyrir erfiðleikum sem þeir eiga erfitt með að takast á við. Talið er að stuðningur við foreldra og stuðningur við nemendur innan veggja skólans skipti mestu um það hvort ungmenni nái að ljúka framhaldsskóla. Þar kemur skólaheilsugæsla sterkt inn í.