Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:18:17 (4625)

2004-02-25 14:18:17# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er ljóst að Miðstöð heilsuverndar barna á að vera faglegur leiðbeinandi til barna og ungmenna til 18 ára aldurs. Það má örugglega finna mismunandi form fyrir þessa þjónustu, m.a. skólaheilsugæslu í framhaldsskólum, en alveg ljóst að hún er bráðnauðsynleg. Því hvet ég hæstv. ráðherra að standa vaktina og gera allt sem í hans valdi stendur til að koma á virkri skólaheilsugæslu fyrir framhaldsskólanema. Mörg vandamál steðja að þessum aldurshópi og bara það að hafa heilbrigðisstarfsmann, ég tala nú ekki um ef aðgangur er að sálfræðingi líka sem getur leiðbeint bæði í líkamlegum og andlegum vandamálum og vísað nemendum áfram eða bara verið til staðar, er mjög mikilvægt og ég er alveg viss um að það muni til framtíðar spara háar upphæðir í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni.