Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:43:31 (4638)

2004-02-25 14:43:31# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég velti því nú fyrir mér í ljósi þessarar ágætu fyrirspurnar, tölfræðinnar sem þar kom fram og svars ráðherra, hve mikið það gagnist okkur í umræðunni að hafa svo ákveðna skráargatssýn. Ég held að það sé í raun engin tilviljun að þarna er tekið 15 ára tímabil. Ef tekið yrði, eins og ráðherra nefndi áðan, annað tímabil, styttra tímabil eða eitthvað annað þá fá menn allt aðra niðurstöðu.

Ég ítreka það sem fram kom í svari ráðherrans áðan, að á fjögurra ára tímabili, ef við lítum til sérfræðilæknakostnaðarins, hefur hlutdeild Tryggingastofnunar aukist um 212%. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur aukist minna ef við tökum þetta ákveðna tímabil. Það segir okkur fyrst og fremst að útgjöld okkar til heilbrigðismála hafa vaxið alveg stórkostlega.

Ég held að fyrst og fremst þurfi að styðja við frekari rannsóknir. Sú niðurstaða að aðeins tæpur helmingur þeirra sem á rétt á afsláttarkortum og endurgreiðslu nýti þau segir manni að hugsanlega eru þau hróp sem stundum eru í pólitíkinni um háa kostnaðarhlutdeild ástæðan fyrir því að fólk leitar ekki eftir þessari þjónustu. Það gefur sér fyrir fram að hún sé dýrari en hún er.