Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:47:23 (4640)

2004-02-25 14:47:23# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég bið hv. fyrirspyrjanda að bera fulla virðingu fyrir þeim tölum sem ég hef hér. Ég ber fulla virðingu fyrir skýrslu Rúnars Vilhjálmssonar. Athyglisverðasta niðurstaðan sem kemur fram í skýrslunni er kannski sú að fólk notar ekki öryggisnet samfélagsins. Auðvitað er umhugsunarefni af hverju það er. Það þurfum við að (Gripið fram í.) girða fyrir. Þetta þarf að kynna betur. Vonandi hlusta einhverjir á þessa umræðu. Hún yrði þá þáttur í þeirri kynningu.

Það er alveg ljóst að við höfum margs konar öryggisnet í þessu kerfi, m.a. eru gjöld fyrir læknisþjónustu barna, öryrkja og aldraðra miklu lægri. Afsláttarþök eru í gildi. Við erum með endurgreiðslureglugerð til að endurgreiða tekjulágu fólki (ÁRJ: Þetta er of flókið.) og afsláttarkort. En þetta öryggisnet er ekki notað. Það er umhugsunarefni.

Varðandi það hvort hækkun gjalda sé meðvituð ákvörðun, þá er það meðvituð ákvörðun hjá okkur að halda gjöldum til grunnþjónustunnar lágum. Það hefur verið reynt að halda gjöldum í heilsugæslunni lágum. Það er verið að bæta þjónustu heilsugæslunnar. Hún hefur verið bætt mjög mikið á síðustu tveimur, þremur árum og það er meðvitað.

Þjónustugjöld fyrir notendur heilbrigðisþjónustu eru þáttur í því að halda uppi okkar góða heilbrigðiskerfi. Ábyrgir stjórnmálamenn hafa látið hafa það eftir sér að hér væru nógir peningar í heilbrigðiskerfinu. Ég veit ekki betur en forustumenn Samf. hafi sagt það. Ég veit ekki til að þeir séu tilbúnir til þess að dæla peningum í heilbrigðiskerfið fram yfir það sem nú er. Það ef hef ég ekki orðið var við.