Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:04:51 (4648)

2004-02-25 15:04:51# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og heyri að hann er sammála mér varðandi þann vanda sem er til staðar, að þörf er úrbóta í þessum málaflokki og það þurfi að breyta áherslum. Ég fagna þeim tillögum sem hann kom fram með í ráðuneyti sínu um hvað gera þurfi. Það er mjög erfitt að greina á milli þess hvenær einstaklingur er geðfatlaður og falli undir félagslega kerfið og félmrh. og hvenær hann er geðsjúkur og falli undir heilbrigðiskerfið og heilbrrh. Yfirleitt er um sama hópinn að ræða og ég er sannfærð um að þessi tvískipting á ábyrgð á þessum hóp hefur áhrif á þjónustuna við hann. Skipt ábyrgð þýðir að hvor vísar á hinn og það eru mörg dæmi um það. Það hafa komið fram hugmyndir um að sameina þennan málaflokk undir eitt ráðuneyti og jafnvel hafa komið fram hugmyndir um fjölskylduráðuneyti í því sambandi.

Norræna heilbrigðistölfræðinefndin birtir samanburðartölur milli Norðurlanda og þar koma fram mjög merkilegar tölur sem segja okkur t.d. að við leggjum allt of mikla áherslu á stofnanaþjónustu fyrir geðsjúka. Fjöldi sjúkrarúma á geðdeildum á Íslandi eru 118 fyrir 100 þúsund íbúa, en á bilinu 38--98 annars staðar á Norðurlöndunum. Meðallegutími geðsjúkra á geðdeildum á Íslandi er 52 dagar en á bilinu 21--41 dagur annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta bendir á að við erum með rangar áherslur í þjónustu við geðsjúka og eins og við ræddum áðan þarf að leggja áherslu á sjálfstæða búsetu og nauðsynlegt stuðningskerfi fyrir einstaklinga á eigin heimilum umfram stofnanaþjónustu. Þetta eru m.a. áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég tel að við félmrh. getum verið sammála um að aukin áhersla á búsetuúrræði fyrir fatlaða umfram stofnanaþjónustu verði bæði þessum einstaklingum til góða og jafnframt hagkvæmt fyrir samfélagið í heild svo ekki sé talað um sameiginlega sjóði landsmanna. Hér er um lausnarefni að ræða þar sem allir geta komið út sem sigurvegarar.