Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:07:04 (4649)

2004-02-25 15:07:04# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég get tekið undir með hv. þingmönnum að skipulagið í þessum málaflokki gæti verið og mætti vera skilvirkara. Aukin samvinna þeirra ráðuneyta sem að máli koma er að mínu viti vissulega skref í rétta átt, en ég ætla ekki að fullyrða hins vegar að þarna sé um að ræða einu réttu lausnina hvað þetta varðar.

Úrræði í búsetumálum geðfatlaðra er viðfangsefni sem við þurfum að takast á við á hverjum tíma og ég tek undir það að fjölbreytt framboð búsetuúrræða sem hentar hverjum og einum er nauðsynlegt, bæði út frá fjárhagslegu en ekki síður út frá faglegu sjónarmiði og undirstrika það.

Hæstv. forseti. Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að fjölga megi verulega búsetuúrræðum fyrir fatlaða, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og ég get upplýst það við þessa umræðu að þar verður m.a. horft sérstaklega til geðfatlaðra.