Selir

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:08:24 (4650)

2004-02-25 15:08:24# 130. lþ. 72.6 fundur 469. mál: #A selir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Hæstv. forseti. Okkur ber að virða lífríkið sem við berum ábyrgð á og til þess höfum við lög og reglur og stjórnsýslu. Í langflestum tilvikum hefur það tekist ákaflega vel. Hins vegar hefur verið misbrestur í sumum tilvikum og það mál sem mig langar að reifa sérstaklega við hæstv. umhvrh. varðar seli.

Ég var sjálfur í hennar sporum sem umhvrh. fyrir nokkrum árum þegar samþykkt voru lög sem kölluð voru villidýralög á hinu háa Alþingi. Þá spunnust harðvítugar deilur millum þriggja ráðuneyta um það hvar ætti að vista stjórnsýslu sem varðaði seli, hvar ábyrgðin ætti að vera á veiðum á sel, á eftirliti og umfram allt ábyrgðin á því að ekki yrði gengið of nærri stofnum. Sjútvrn., landbrn. og umhvrn. voru ekki á eitt sátt um það hvar þetta ætti að vistast í stjórnsýslunni og fyrir vikið varð niðurstaðan sú að í þeim lögum þar sem selir hefðu að sjálfsögðu átt að vera vistaðir urðu þeir það ekki. Í dag, svo fremi sem mig bresti ekki þekking og minni, eru einkum tvenns konar íslensk lög sem ná yfir seli. Það er annars vegar tilskipun konungs frá 1849 um veiðar og hins vegar lög um selaskot og uppidráp frá árinu 1925.

Menn hafa farið mjög harkalega gagnvart þeim tveimur selategundum sem lifa við Ísland. Svokölluð hringormanefnd hefur haft það að sérstöku verkefni sínu að fækka sel, mér liggur við að segja að útrýma sel. Ástæðan er sú að talið var að selurinn væri vágestur í lífríkinu og hefði vond áhrif bæði á fiskstofna en jafnframt að hann væri hýsill fyrir ákveðna orma sem voru og eru taldir óæskilegir varðandi afurðavinnslu í sjávarútvegi.

Það skiptir hins vegar máli, virðulegi forseti, að menn fari eigi að síður fram með ábyrgð og varúð. Hér við land er að finna tvær selategundir, landsel, sem er útbreiddasta selategund í heiminum, og útsel, en þeim hefur fækkað töluvert. Fyrir árið 1980 fækkaði landsel verulega hratt þó mér sýnist á gögnum frá Hafró að stofninn hafi verið tiltölulega stöðugur síðan.

Um útselinn gegnir hins vegar allt öðru máli. Hringormanefnd hefur beitt sér sérstaklega gegn honum með miklum verðlaunum og það hefur verið skipuleg útrýmingarherferð í gangi gegn útsel með þeim afleiðingum að stofninn sem var 10--12 þúsund dýr fyrir hálfum til einum áratug er núna kominn niður í 5.500 dýr miðað við skýrslu Hafró frá því í fyrra. Veiðin hefur sömuleiðis fallið gríðarlega. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Eru þessar aðfarir í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og hvað finnst henni um aðgerðir stjórnvalda til eyðingar selum hér við land?