Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:23:30 (4655)

2004-02-25 15:23:30# 130. lþ. 72.7 fundur 492. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrirspurnina.

Hafrannsóknastofnunin hefur staðið að tilraunaveiðum á túnfiski í átta ár eða frá því á haustmánuðum 1996 í samvinnu við japanska útgerðaraðila. Markmið tilraunaveiðanna og rannsókna þeim tengdum er tvíþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með göngum túnfisks innan íslensku efnahagslögsögunnar og kanna veiðanleika hans innan hennar. Í öðru lagi að afla upplýsinga um vistfræði og líffræði túnfisks sem gæti varpað ljósi á göngur hans inn á íslenskt hafsvæði auk þess að vera framlag til rannsókna á fjölþjóðlegum vettvangi.

Fyrirkomulag tilraunaveiðanna hefur verið með þeim hætti að árlega hafa verið gerðir samningar á milli Hafrannsóknastofnunarinnar og japanskra aðila um framkvæmd tilraunaveiðanna og rannsóknir þeim tengdum. Stofnunin hefur notið tekna af veiðunum sem borið hafa uppi mestan hluta kostnaðar við tilraunaveiðarnar og rannsóknir þeim tengdum. Á þeim tíma sem tilraunaveiðarnar og rannsóknir hafa staðið, þ.e. 1996--2003, hafa gjöld verið 82 millj. 905 þús. kr. en tekjur 73 millj. 108 þús. kr. Gjöld umfram tekjur á tímabilinu öllu eru þannig 9 millj. 797 þús. kr.

Miklar sveiflur hafa verið í veiðum frá ári til árs. Afli á sóknareiningu reyndist minnstur 161 kíló á lögn árið 2001 og mestur 1.100 kíló á lögn árið 1997. Engin athugun liggur fyrir um arðsemi veiðanna en ljóst er að þegar vel veiðist, eins og 1997, eru þær ábatasamar.

Útbreiðslusvæði bláuggatúnfisks er mjög stórt. Til þess að öðlast skilning á líffræði og göngumynstri tegundarinnar er mikilvægt að veiðiþjóðirnar hafi með sér samstarf um rannsóknir þannig að það nái til alls útbreiðslusvæðisins fremur en einungis afmarkaðra hluta þess. Hefur Hafrannsóknastofnunin því tekið virkan þátt í vísindastarfi Atlantshafstúnfiskveiðiráðsins ICCAT frá árinu 1999.

Með tilliti til bláuggatúnfisks hafa vísindamenn innan ráðsins einkum verið að skoða göngur tegundarinnar og blöndun milli svæða í Norður-Atlantshafi. Í dag miðast stjórnun veiðanna við að um tvo einangraða stofna sé að ræða með mörk sem liggja um 45° vestur. Samkvæmt þessari skiptingu tilheyra fiskar sem hingað sækja austari stofninum. Margt bendir þó til að blöndun eigi sér stað og hafa athuganir á stærð og ástandi fiska stutt þá ályktun. Til stendur að rannsaka þessa blöndun frekar og í því skyni er Hafrannsóknastofnunin í samstarfi við bandaríska erfðafræðinga um samanburð á erfðasamsetningu fiska frá Íslandsmiðum við svæði austan og vestan Atlantshafsins. Jafnframt er stofnunin í samstarfi um þróun aðferða til að meta aldur bláuggatúnfisks sem ætlað er að bæta stofnstærðarmat tegundarinnar.

Rannsóknarmenn Hafrannsóknastofnunarinnar sem hafa verið um borð í túnfiskveiðiskipum hafa skráð upplýsingar og framkvæmd veiðanna, afla og aflabrögð auk þess að taka sýni úr fiskum til rannsókna. Komið hefur í ljós að stórir bláuggatúnfiskar, að meðaltali tveggja metra langir, ganga inn á íslenskt hafsvæði á haustin. Gengd þeirra virðist þó mjög breytileg milli ára og afli á sóknareiningu reyndist minnstur árið 2001 eins og áður var talið. Unnið er að úrvinnslu fæðusýna úr fiskum og munu niðurstöður þeirra hugsanlega varpa ljósi á göngur þeirra inn á íslenskt hafsvæði. Við tilraunaveiðarnar hefur ekki tekist að finna tengsl á milli afla á sóknareiningu og hitastigs sjávar. Í þessu samhengi ber að geta að auk hitastigs er talið að fæðuframboð og stofnstærð hafi áhrif á göngur fiskanna. Fram á sjöunda áratuginn þegar tegundin gekk að Noregsströndum var sjórinn þar hlýrri, síldarstofnar sem voru líklega fæða tegundarinnar voru stærri auk þess sem túnfiskstofninn sjálfur var í betra ástandi en nú. Það er því ekki víst að hækkandi hitastig eitt og sér valdi því að bláuggatúnfiskur fari aftur að ganga inn á norðanvert Norður-Atlantshaf.

Ísland gerðist aðili að Atlantshafstúnfiskráðinu árið 2002. Áður hafði Ísland tekið þátt í starfi ráðsins sem áheyrnarfulltrúi. Innan ráðsins hefur Ísland lagt megináherslu á tvennt er kemur að veiðistjórnun á bláuggatúnfiski, annars vegar að stöðva verði ofveiði og koma á stjórn sem tryggði sjálfbærar veiðar til lengri tíma, hins vegar rétt Íslands sem strandríkis til þess að þróa veiðar sínar úr stofninum.

Undanfarin ár hefur afli verið langt umfram það sem vísindanefnd ICCAT hefur lagt til. Bæði hefur leyfilegur heildarafli verið settur umtalsvert meira en vísindamenn hafa lagt til auk þess sem raunverulegur afli hefur jafnan verið umtalsvert fram yfir leyfilegan heildarafla.

Ísland sem áheyrnaraðili tók virkan þátt í að móta ný viðmið fyrir úthlutun veiðiheimilda innan ICCAT. Í nýjum viðmiðunum eru það tvö atriði sem eru sérstaklega mikilvæg fyrir Ísland, annars vegar að horft skuli til líffræðilegra þátta stofna svo sem í hve miklum mæli stofnarnir halda sig innan lögsagna ákveðinna ríkja, og hins vegar að sérstakt tillit sé tekið til strandríkja ef efnahagur þeirra er í mjög ríkum mæli háður nýtingu lifandi auðlinda hafsins.

Lengst af ætlaði ICCAT Íslandi engar veiðiheimildir til túnfiskveiða en í ljósi nýrra viðmiðana og aðildar Íslands að ICCAT krafðist Ísland þess að fá úthlutaðan kvóta. Í málflutningi sínum hefur Ísland lagt megináherslu á rétt sinn sem strandríkis auk þess að vera efnahagslega mjög háð nýtingu lifandi auðlinda sjávar.

Á fundi túnfiskveiðinefndarinnar árið 2002 var samþykkt samhljóða tillaga ESB um að Íslandi væri úthlutað 40 tonn árið 2004, 50 tonn árið 2005 (Forseti hringir.) og 60 tonn árið 2006.