Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:28:53 (4656)

2004-02-25 15:28:53# 130. lþ. 72.7 fundur 492. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þetta yfirgripsmikla svar. Ég geri mér grein fyrir því að rannsóknir á þessum stofni og vonandi framtíðarauðlind Íslendinga eru flóknar og kostnaðarsamar. Mér þykir þó gleðilegt að heyra að hæstv. ráðherrum hefur tekist að koma árum Íslendinga svo fyrir borð að við berum ekki mikinn kostnað af þeim.

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir í hverju tekjurnar eru fólgnar og þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi skýra það örlítið í svari sínu á eftir.

Það kemur í ljós að við erum að fá kvóta sem fer stigvaxandi ár frá ári. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þær veiðar sem hafa verið stundaðar af Japönum innan íslensku efnahagslögsögunnar tengjast veiðireynslu. Eru þær metnar sem veiðireynsla Íslendinga? Ég er ekki alveg viss um það af því að hér er um erlend skip að ræða.

Ég held að þær upplýsingar sem senn liggja fyrir um fæðuval geti varpað ljósi á göngur og sömuleiðis er athyglisvert að heyra að í gangi eru erfðafræðilegar rannsóknir til þess að kanna hvort íslensku túnfiskarnir, sem ég leyfi mér að kalla svo fyrst þeir ganga hér inn í lögsöguna, kunni að koma úr báðum þessum tveimur stofnum í Norður-Atlantshafinu.

Ég vildi líka inna hæstv. ráðherra eftir því hversu mikill afli hefur komið um borð í þessum japönsku skipum að meðaltali á ári frá árinu 1996 ef hann hefur þær upplýsingar. Hugsanlega las hann það áðan í sínu hraðlesna svari en ég kann að hafa misst af því.

Ég vil ítreka það, herra forseti, að ég tel það sé ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að huga mjög vel að möguleikum til þess að auka verðmætavinnslu í sjávarútvegi. Túnfiskveiðar eru klárlega hugsanleg leið. Og við eigum að leggja í rannsóknir sjálfir eða með öðrum aðilum til þess að ýta undir möguleika á að nýta slíka auðlind.