Fátækt

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:06:19 (4665)

2004-03-01 15:06:19# 130. lþ. 73.1 fundur 362#B fátækt# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Frá 1. janúar 2003 eða í liðlega eitt ár hefur verið starfandi samráðshópur undir forustu forsrh. með aðild félmrh., fjmrh. og heilbrrh. sem hafði það verkefni að skilgreina vandann sem við er að etja vegna fátæktar og finna leiðir til úrbóta. Hæstv. félmrh. upplýsti í október sl. að lokadrög að skýrslu starfshópsins lægju fyrir og niðurstöðu ráðherranefndarinnar væri að vænta í nóvember og þar kæmu fram tillögur til úrbóta í málefnum fátækra.

Aftur upplýsti hæstv. félmrh. fyrir um mánuði síðan að hæstv. forsrh. mundi mjög fljótlega gera grein fyrir niðurstöðum og tillögum til úrbóta. Vísar hæstv. félrmh. þar með ábyrgðinni á þessu máli yfir til hæstv. forsrh. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hver er skýringin á því að niðurstaðan af starfi þessa starfshóps hefur ekki verið kynnt þegar lokadrög að skýrslunni hafa legið fyrir í bráðum fimm mánuði? Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi skýrsla starfshópsins hafi verið kynnt og rædd í ríkisstjórninni og hvort hæstv. ráðherra geti greint frá því hverjar séu helstu tillögur til úrbóta í aðgerðum gegn fátækt og hvenær megi vænta þess að skýrslan verði kynnt og lögð fram til umfjöllunar á hv. Alþingi.