Eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:20:08 (4676)

2004-03-01 15:20:08# 130. lþ. 73.1 fundur 364#B eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Í desember á síðasta ári, árið 2003, skipaði þáv. menntmrh., Tómas Ingi Olrich, nefnd til að kanna hvort tilefni væri til að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ráðherranefnd þessi var skipuð í kjölfar umræðna um eignarhald á fjölmiðlum þegar ný fjölmiðlasamsteypa í eigu Baugs og fleiri aðila var að verða til. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, er formaður nefndarinnar og tjáði hann Morgunblaðinu í frétt þann 3. febrúar sl. að nefndin hefði þegar komið saman og nefndarmenn skipt með sér verkum.

Í nefndinni eiga sæti auk Davíðs Þórs þeir Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Frímannsson, deildarforseti kennaradeildar Háskólans á Akureyri, og Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri þingflokks Framsfl.

Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar er gert ráð fyrir að hún ljúki störfum 1. mars árið 2004 og sagði Davíð Þór í sama viðtali við Morgunblaðið að allar líkur væru á að það stæðist. Nú er 1. mars 2004 runninn upp og því spyr ég hæstv. menntmrh.:

Hvað líður störfum ráðherranefndar um hvort tilefni sé til að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum? Má vænta megi þess að hún skili af sér í dag eða á allra næstu dögum?