Eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:22:28 (4678)

2004-03-01 15:22:28# 130. lþ. 73.1 fundur 364#B eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Það er athyglisvert sem fram kemur hjá hæstv. menntmrh., að nefndin mun ekki skila af sér á tilsettum tíma, þ.e. núna 1. mars eins og upp var lagt með. En það er mikilvægt að hvetja hæstv. menntmrh. til að hafa samband við nefndina og ýta við þeim. Tíminn líður og eigi lagafrv. þetta að koma inn í þingið fyrir þinglok í vor er mjög mikilvægt að þingið fái eðlilegan tíma til að fjalla um málið.

Mikilvægt er að vandað sé til verka. Hér er brýnt mál á ferðinni. En það er líka mikilvægt að eyða þeirri rekstraróvissu sem hvílir yfir fjölmiðlum landsins í kjölfar þeirrar harðvítugu umræðu sem hefur geisað í samfélaginu um eignarhald á fjölmiðlum. Ég skora því á hæstv. ráðherra að taka af skarið og kanna hvort nefndarmenn ætli ekki að fara að skila af sér. Það þarf að liggja fyrir hvort --- eins og lagt var upp með í verkefninu --- tilefni sé til að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og fá fram þann erlenda samanburð sem nefndinni var ætlað að gera.