Eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:24:19 (4680)

2004-03-01 15:24:19# 130. lþ. 73.1 fundur 364#B eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Kjarni málsins, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, er að til þess gæti komið að frv. til laga um eignarhald á fjölmiðlum færi fyrir þingið. Það er mikilvægt að létta þeirri óvissu sem ríkir yfir því viðkvæma umhverfi sem fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi starfa í og þeim fjárhagslega línudansi sem fyrirtækin búa við.

Vekja mætti athygli á því að flestir meginfjölmiðlar utan Morgunblaðsins á hinum frjálsa markaði hafa skipt um eigendur á síðustu þremur árum. Það er til marks um þá erfiðleika sem uppi eru í rekstri fjölmiðla á Íslandi og undirstrikar þörf þeirra fyrir að starfa við öryggi en ekki undir hvers konar hótunum stjórnmálamanna af hvaða tilefni sem er. Því er mikilvægt að eyða þessari óvissu, að nefndin skili af sér og fari eftir skipunarbréfi sínu, þ.e. skili af sér 1. mars. Í dag.