Framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:28:36 (4683)

2004-03-01 15:28:36# 130. lþ. 73.1 fundur 365#B framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég var allan tímann sem hv. þm. talaði að reyna að tengja mál hans inn í mitt ráðuneyti. Í rauninni snýr þetta mál fyrst og fremst að hæstv. menntmrh. að mínu mati.

Hins vegar vil ég nefna það í þessu sambandi að ákveðin lög, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, heyra undir iðn.- og viðskrn. Þau lög hafa sannarlega skilað miklu til samfélags okkar. Í því sambandi má nefna að hér fara fram upptökur í tengslum við Leðurblökumanninn. Hér var tekinn upp hluti af James Bond mynd sem skilaði hvorki meira né minna en 300 millj. kr. inn í samfélag okkar og efnahagslíf. Fleira er á prjónunum í því sambandi þannig að þau lög hafa sannarlega komið að gagni. Nú stendur fyrir dyrum að fara í ákveðna vinnu við að framlengja lögin vegna þess að þau eru tímabundin. Til þess þarf samþykki ESA, eins og með svo margt annað.

Þetta er sú hlið málsins sem ég get helst tengt við ráðuneyti mitt. En af því að hv. þm. spyr um sérstakar aðgerðir vegna fréttar sem barst frá Ríkisútvarpinu, sjónvarpi um að ekki væri til fjármagn í frekari gerð innlends efnis þá verð ég að vísa því frá mér.