Brottkast á síld

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:34:40 (4688)

2004-03-01 15:34:40# 130. lþ. 73.1 fundur 366#B brottkast á síld# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Þann 14. júlí sl. gaf norska strandgæslan skipstjóra og útgerð síldveiðiskipsins Þorsteins EA 810 skriflega aðvörun vegna brottkasts á síld undir 32 sm lengd og kolmunna sem veiddist sem aukaafli þegar skipið var á síldveiðum á hinu svokallaða fiskverndarsvæði Norðmanna við Svalbarða.

Sá þingmaður sem hér stendur hefur þessa skriflegu aðvörun undir höndum. Ég fékk hana hjá norsku strandgæslunni og var ekki mikið mál að fá hana. Á aðvöruninni kemur fram að skipstjóri Þorsteins EA skrifar undir hana og samþykkir án athugasemda. Þegar þetta gerðist var Þorsteinn EA að veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum samkvæmt kvótaúthlutun frá íslenskum stjórnvöldum. Af ummælum skipherra norsku strandgæslunnar og myndum sem teknar voru um borð í Þorsteini EA má ráða að skipið hafi verið útbúið til vélvædds brottkasts á síld þar sem frákastið var leitt gegnum slöngubarka fyrir borð. Ekki hefur verið greint frá því hvernig menn losuðu sig við kolmunnann.

Hér liggur fyrir mjög sterkur grunur um að skipstjóri og útgerð Þorsteins EA hafi brotið lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Hyggst hæstv. sjútvrh. beita sér fyrir því að lögreglurannsókn fari fram í málinu?