Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:44:32 (4694)

2004-03-01 15:44:32# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir brtt. sem við flytjum í sameiningu, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Sameiginlega höfum við staðið að minnihlutaáliti við frv. við fyrri umr., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar og sá sem hér stendur. Ég verð að segja að það er með ólíkindum að frv. sé komið í óbreyttri mynd eftir alla þá gagnrýni sem það hefur fengið frá stjórnarandstöðunni sameinaðri og verkalýðshreyfingunni sem leggst eindregið gegn því að frv. verði samþykkt án þess að gerðar verði á því breytingar.

[15:45]

Aðeins örfá orð í upphafi um frv. Það er tilkomið vegna samkomulags sem gert var á evrópskum vettvangi. Verkalýðshreyfingin þar, evrópska verkalýðshreyfingin, European Trade Union Confederation, ETUC, samtök atvinnurekenda sem skammstafað er UNICE og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild, CEEP, gerðu rammasamning árið 1997 sem í kjölfarið var samþykktur í samstarfsnefnd um hið Evrópska efnahagssvæði. Í þessu fólst að aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis bæri að sjá til þess að samkomulaginu yrði framfylgt í samræmi við tilskipun sem út var gefin.

Tveir valkostir voru í stöðunni, annars vegar að um þetta yrði samið í samningum á milli aðila á vinnumarkaði eða að tilskipunin yrði lögfest. Hér á landi náðist samkomulag milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins en því miður verður hið sama ekki sagt um opinbera geirann. Ekki náðist samkomulag milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar --- að borðinu þeim megin komu öll samtök launafólks, Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM, Kennarasambandið --- og hins vegar atvinnurekendahliðarinnar með fjmrn. í broddi fylkingar en þar voru að sjálfsögðu einnig Reykjavíkurborg og hin sveitarfélögin.

Það var í ljósi þessa sem okkur þótti eðlilegt að fara þess á leit að hæstv. fjmrh. yrði hér einnig við umræðuna ásamt hæstv. félmrh. sem leggur þetta frv. fram. Hæstv. fjmrh. kom að þessu máli sem samningsaðili og okkur leikur mörgum forvitni á að heyra hvaða rök hann hefur fyrir þeim hluta frv. sem mest er deilt um.

Þetta frv. fjallar um starfsmenn í hlutastörfum. Markmið þessara laga er að koma í veg fyrir að starfsmenn í hlutastörfum sæti mismunun og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa. Einnig að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði atvinnurekenda og starfsmanna.

Í 4. gr. frv. er síðan tíundað hvað hér er um að ræða. Eins og bent var á við 2. umr. er ekkert mjög handfast. Það eru tilmæli og í 4. gr. segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Atvinnurekendur skulu svo sem kostur er leitast við að ...`` --- og síðan kemur upptalning. Skulu svo sem kostur er leitast við að --- gera hvað? Jú:

,,a. taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf,

b. taka tillit til óska starfsmannsins um að auka eða minnka starfshlutfall sitt, skapist svigrúm til þess,

c. auðvelda aðgang að hlutastörfum á öllum sviðum fyrirtækisins eða stofnunarinnar, þar á meðal að sérhæfðum störfum og stjórnunarstörfum,

d. veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna á vinnustaðnum, þar með talin hlutastörf, til að auðvelda flutning úr hlutastarfi í fullt starf og öfugt,

e. greiða fyrir aðgangi starfsmanna í hlutastörfum að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni að þeir geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi, og

f. veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað.``

Síðan segir hér á þá leið að það teljist ekki eitt og sér gild ástæða uppsagnar að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf eða öfugt. Allt eru þetta atriði sem skipta máli en eins og ég sagði er hér ekkert mjög handfast að öðru leyti en því að vísað er í mikilvæg atriði. Ég vil þar taka sérstaklega út úr e-liðinn, um að greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun. Þetta er nokkuð sem skiptir mjög miklu máli á vinnustöðum og sem betur fer hefur á undanförnum árum samist um að veita umtalsvert fjármagn til símenntunar og endurmenntunar. Hæstv. núv. fjmrh. hefur staðið sig bærilega í því efni og er reiðubúinn að semja um aukið framlag til launafólks í þennan málaflokk.

Þess vegna sætir furðu að þegar kemur að því að tryggja réttindi hlutavinnufólks skuli hann beita sér fyrir því að það sé undanþegið þessum réttindum.

Er þá komið að hinu umdeilda ákvæði sem er að finna í 3. mgr. 2. gr. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ákvæði laga þessara taka ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda byggist sú undanþága á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalds eða venju í slíkum tilvikum. Aðilum vinnumarkaðarins ber að endurskoða reglulega hvort þær hlutlægu ástæður sem lagðar eru til grundvallar undantekningunum séu enn í gildi.``

Breytingartillaga mín og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur gengur út á að fella þessa mgr. brott úr frv., að þessi undanþágugrein þar sem starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eru undanþegnir þessum réttindum verði felld brott úr frv. Ég held að okkur mörgum leiki forvitni á að heyra hvaða skýringu hæstv. fjmrh. hefur á því að hafa þessi réttindi af starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Hvernig skýrir hann það að Íslendingar einir --- við erum eina þjóðin --- hafa þessi réttindi af stórum hópum launafólks, starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga? Hvernig stendur á því að þetta er gert?

Síðan er það umhugsunarefni fyrir hæstv. félmrh. sem hefur haldið því fram, og fulltrúar félmrn. í félmn. og víðar, að mjög sé rekið á eftir þessu frv. og bent á að Eftirlitsstofnun EFTA kunni að öðrum kosti hugsanlega að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum fyrir brot á EES-samningnum verði frekari frestun á þessu máli hvers vegna hann hefur ekki áhyggjur af því að talsmenn íslenskrar verkalýðshreyfingar, og þar vísa ég til ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambands Íslands, telja að ótvírætt gangi þetta gegn tilskipuninni, standist ekki lögin, standist ekki samninginn. Nú er um það rætt, verði þetta gert að lögum, að höfða mál á grundvelli þessa.

Þegar menn gera samninga eiga þeir að standast, menn eiga að virða samninga sem þeir gera. Við höfum undirgengist þennan samning. Við höfum undirgengist þessa tilskipun, að framfylgja henni. Það hefur hæstv. ríkisstjórn gert fyrir hönd þjóðarinnar. Hvers vegna er það þá ekki gert? Hver er skýringin á því að hafa þessi réttindi af stórum hluta launafólks?

Nú kann hæstv. ráðherra að segja að tímavinnufólk hjá ríki og sveitarfélögum sé fámennur hópur, fólk sem sé tímabundið í starfi, örfáa mánuði í tilfallandi störfum. Ef það væri svo væru menn ekki að gagnrýna þetta. Staðreyndin er hins vegar sú að þeim reglum er ekki hlítt. Það eru stórir hópar, mörg hundruð manns, sem hafa árum saman verið í tímavinnu enda þótt fólkið sé í reynd í fastri vinnu, reglubundinni vinnu en sem tímavinnufólk. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi um þetta. Eitt var að koma inn á borð hjá BSRB sem ég frétti af, kona sem hefur verið starfandi frá 1998 í reglubundnu starfi en sem tímavinnumanneskja. Hún yrði væntanlega undanþegin þessu. Hún nýtur ekki þessara réttinda. Reyndar er viðkomandi einstaklingur ekki látinn öðlast veikindarétt á borð við annað fólk sem hefur verið lengi í vinnu. Nú er hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að í ofanálag verði þessi einstaklingur, og einstaklingar sem svipað er á komið fyrir, undanþeginn þessum lögum. Hvers vegna? Hver er skýringin á því?

Við heyrðum hæstv. ráðherra og við höfum heyrt talsmenn ríkisstjórnarinnar sem hafa mælt fyrir þessu máli segjast telja að að öllum líkindum muni þeir komast upp með málið, komast upp með að hafa þessi réttindi af fólki. En hvers vegna er verið að reyna það? Hvers vegna í ósköpunum er verið að reyna það? Hver er skýringin á því? Hvaða hópa hefur hæstv. fjmrh. í huga sem eiga að fara á mis við þessi réttindi hlutavinnufólks? Hvaða hópar skyldu það vera?

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt í fyrri ræðu minni við lokaumræðu, 3. umr. um þetta mál. Ég mun nú hlusta eftir málflutningi hæstvirtra ráðherra. Ég vona að þeir svari núna strax að lokinni þessari ræðu þannig að við getum þá við frekari umræðu rætt þetta málefnalega, komist að samkomulagi eða tekist á um málið eftir atvikum en ég vona að við heyrum núna rökstuðning frá ríkisstjórninni fyrir því að hafa þessi réttindi hlutavinnufólks af stórum hópum, mörg hundruð manns, mörgum hundruðum tímavinnumanna, karla og kvenna, hjá ríki og sveitarfélögum.