Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:59:16 (4695)

2004-03-01 15:59:16# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlýða á hv. þingmann eins og venjulega. En hann talar um þetta mál eins og það standi til með þeirri tilskipun sem hér er til umræðu og liggur þessu máli til grundvallar, að fella niður ráðningarform tímavinnukaupsfólks. Auðvitað er það ekki svo. Það sem vakir fyrir mönnum, í fyrsta lagi með þeim rammasamningi sem gerður hefur verið erlendis um þessi mál og sem tilskipunin er byggð á, í öðru lagi með tilskipuninni, í þriðja lagi með frjálsum samningum aðila úti á vinnumarkaði um þetta og í fjórða lagi með þessu frv. hér, er að tryggja að þeir sem vinna hlutastörf sæti ekki mismunun út á það að vinna í hlutastarfi. Sá er kjarni þessa máls, að ekki sé hægt að níðast á fólki, mismuna því fyrir það að vera í hlutastarfi en ekki fullu starfi. Það er málið.

[16:00]

Um þetta náðist árið 1997 rammasamningur þeirra aðila sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði til áðan. Á þeim grunni samþykkir Evrópubandalagið tilskipun sem við erum núna að taka í lög hér á landi sem frekar almenn rammalög því að auðvitað er ætlast til þess að aðilar vinnumarkaðarins, hver á sínu yfirráðasvæði, semji um þessi atriði eins og annað sem undir samningssvið þeirra heyrir. Lögin eru bara að setja rammann um það hvað ekki má í þeim efnum. Það verður sem sagt bannað að mismuna fólki fyrir það að vera í hlutastarfi. Þvert á móti er markmið með þessu m.a. að gera það eftirsóknarvert að geta verið í hlutastarfi og að atvinnulífið lagi sig að aðstæðum launafólks (ÖS: Þetta er ekki spurningin.) sem kýs að vera í hlutastarfi og hagnýti sér með því þá hagkvæmni sem í slíku kann að felast, bæði fyrir vinnuveitendur og launþega.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar hér fram í, af alkunnri tilhneigingu sinni til að segja mönnum til, að þetta sé ekki spurningin. Þetta er sú spurning sem ég er að leyfa mér að reifa hér, herra þingmaður (ÖS: Ekki spurningin sem Ögmundur spurði.) og herra forseti. Þetta er sú spurning sem ég er að reyna að leyfa mér að reifa hér til að setja þetta mál í samhengi. Ég hlýt að hafa fullt leyfi til þess. Um þetta snýst frv. Það sem þingmaðurinn gerir síðan að umtalsefni varðar tímavinnufólkið sem vinnur hjá því opinbera.

Aðilar vinnumarkaðarins á hinum almenna vinnumarkaði hafa komið sér saman með samkomulagi um þau atriði sem að þeim lúta en ekki hefur tekist samningur á vettvangi hinna opinberu aðila um þessi atriði. Það er ekkert sem segir að slíkt samkomulag geti ekki náðst, hvað svo sem líður þessu frv. hér sem vonandi verður að lögum innan skamms. Auðvitað væri eðlilegasti vettvangurinn að menn gerðu slíkan samning innan þess ramma sem þessi lög bjóða upp á. Hins vegar er það rangt að ákvæðið sem þarna er vikið að, 3. mgr. 2. gr. frv., standist ekki. Gert er ráð fyrir því í rammasamningnum að heimilt sé að undanþiggja, eins og skýrt er tekið fram í greinargerð frv., launþega sem eru lausráðnir í hlutastörf, samanber það sem um það segir í enska textanum, sem ég ætla ekki að fara hér með, en í íslenska textanum er það atriði þýtt sem launþegar sem eru lausráðnir í hlutastörf. Nærtækast er að skýra það þannig að það séu starfsmenn sem ekki eru í föstu ráðningarsambandi, starfsmenn sem sinna tilfallandi verkefnum eða eru í afleysingum.

Hin tilvitnuðu orð byggja almennt á því að grundvöllur vinnuframlagsins sé sveiflur í starfsemi stofnunar, t.d. vegna tímabundins álags, afleysinga eða vegna þess að hluti starfseminnar er háður sérhæfðu vinnuafli til að vinna að einstökum verkefnum sem oftast er fyrirséð hvenær muni ljúka. Í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, þ.e. þá sem semja við ríkið, hefur af þess hálfu verið lögð áhersla á að hér sé um að ræða hlutlægar ástæður sem er forsenda þess að undanþágunni sé beitt.

Í undanþágunni er sem sé talað um að beita verði hlutlægum ástæðum án þess að þau ummæli séu skýrð frekar. Það er eðlilegt að skýra þau í samræmi við þær venjur og siði sem tíðkast í hverju landi en í rammatilskipuninni og þeim gögnum sem lögð hafa verið fram er beinlínis gert ráð fyrir því að samningsaðilar geti við innleiðinguna tekið mið af kjarasamningum og venjum í hverju landi fyrir sig.

Hv. þm. hélt því fram að Íslendingar einir þjóða nýttu sér þessa undanþáguheimild með því að undanþiggja þetta tiltekna tímavinnufólk. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki rétt. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa Danir einnig nýtt sér þessa undanþágu, hvað svo sem segir í umsögn BSRB um það atriði, um þetta frv. Af hálfu ríkisins hér var einmitt horft til innleiðingar Dana á þessari tilskipun en opinber vinnumarkaður hér á landi, eins og hv. þm. veit mætavel, á að því er umrædd störf varðar allnokkra samsvörun við opinberan vinnumarkað í Danmörku.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa um þetta mál, herra forseti, og ég vona að það hafi skýrst að einhverju leyti, þótt mér sýnist ekki á svipbrigðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að svo sé. Ég vil undirstrika að ég tel ekki að það sem hér hefur verið sagt eða það sem stendur í þessu frv. útiloki það að menn geti komist að niðurstöðu við samningaborðið. Ég tel eðlilegra að það sé gert á þeim vettvangi frekar en að knúin sé fram niðurstaða í lögum áður en menn eru búnir að reyna til fullnustu hvort þeir geti komist að sameiginlegri samningsniðurstöðu.