Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:14:09 (4699)

2004-03-01 16:14:09# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. kaus að svara ekki spurningu minni af hverju hann beitti sér ekki fyrir því að fækka þessum hundruðum manna sem árum saman (ÖJ: Alltaf verið að reyna það.) eru á tímavinnukjörum (Gripið fram í: ... þjóðfélaginu.) en ekki í hlutastörfum.

Ég vil bara segja það, herra forseti, að við innleiðingu þessarar tilskipunar hefur af hálfu ríkisins verið lögð áhersla á að kjarasamningar ríkisins við stéttarfélög opinberra starfsmanna gera beinlínis ráð fyrir tímavinnukaupsfólki en að það hafi almennt aðra stöðu og verði ekki jafnað til þeirra sem vinna hlutastörf sem hlutfall af mánaðarstarfi. Reyndar er það svo að tímakaup þeirra sem fá greitt tímavinnukaup er almennt hærra en hjá mánaðarkaupsfólki. Og almennt eru ekki gerðir sérstakir ráðningarsamningar eða gert ráð fyrir föstu ráðningarsambandi. (ÖJ: Réttindin rýrari.)

Niðurstaðan í þessu er sú að málið á betur heima á samningaborðinu. Hv. þm. segir að það standi þá upp á okkur. Ætli það sé ekki eins og venjulega í samningum að það standi upp á báða aðila?

Ég hvet til þess að reynt verði að leysa málið á þeim vettvangi.